Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir óhætt að kenna þrátt fyrir rakaskemmdir

27.08.2019 - 19:54
Mynd: RÚV / Kristinn Þeyr Magnússon
Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ fullyrðir að Varmárskóli sé kennsluhæfur, þrátt fyrir að ekki sé búið að laga allar rakaskemmdir. Skólastjóri segir að eitt barn hafi óskað eftir flutningi úr skólanum vegna veikinda af völdum myglu.

Stjórn Foreldrafélags Varmárskóla í Mosfellsbæ sagði í hádegisfréttum RÚV frá börnum sem hefðu veikst vegna myglu eða rakaskemmda í skólanum. Fulltrúi félagsins sagði að nokkrir foreldrar hefðu gripið til þess að halda börnum sínum heima.   

„Það hefur eitt foreldri á síðasta ári óskað eftir flutningi fyrir barnið sitt úr þessum skóla. Forföll í morgun voru eðlileg; 19 börn fjarverandi vegna veikinda eða leyfa, þannig við komum svolítið af fjöllum hvað þetta varðar,“ segir Anna Gréta Ólafsdóttir, skólastjóri yngri deildar í Varmárskóla.

Bókum yngri deildar fargað

Í sumar var unnið að endurbótum á húsnæði yngri og eldri deildar skólans vegna rakaskemmda. Meðal annars þurfti að farga öllum bókum bókasafnsins yngri deildar og færa tónlistarkennslu. Þetta hefur þýtt ýmsa flutninga milli stofa.

Foreldrafélagið hefur gagnrýnt að skólahald hefjist áður en framkvæmdum sé lokið á öllum stöðum þar sem fundust rakaskemmdir. Samkvæmt tilkynningu frá skólanum standa eftir nokkrar staðbundnar viðgerðir á rakasvæðum í aðalbyggingu og í húsnæði yngri deildar, ásamt lausum stofum. „Það eru örlitlar framkvæmdir eftir sem snúa fyrst og fremst að þessum færanlegum stofum. Þær framkvæmdir verða þá á þeim dögum sem ekki er skólastarf, helgar eða vetrastarf eða eitthvað slíkt,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Áhyggjur foreldra eðlilegar að mati bæjarstjóra

Ættu Foreldrar að hafa áhyggjur af líðan barnanna sinna í þeim stofum? „Nei. Allir okkar sérfræðingar segja að allt kennsluhúsnæði sé tilbúið til notkunar,“ segir Haraldur.

Þá hafa foreldrar gagnrýnt hægagang og lélegt upplýsingaflæði. Haraldur segir hins vegar að framkvæmdirnar hafi gengið hraðar en gert var ráð fyrir. „Það er slæmt ef foreldrar hafa áhyggjur og við tökum það alvarlega,“ segir Anna Gréta.

„Það eru greinilega einhverjir sem hafa áhyggjur af málum og það er leitt og eðlilegt í raun og veru. Við reynum að bregðast við því og upplýsa eins vel og við getum og að hér sé framkvæmdum nánast lokið,“ segir Haraldur jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV