Segir niðurstöðu kosninga engu breyta fyrir Hong Kong

25.11.2019 - 05:51
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08023352 Chinese Foreign Minister Wang Yi (C) speaks to journalists after meeting with Japanese Prime Minister Shinzo Abe (not pictured) in Tokyo, Japan, 25 November 2019.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Hong Kong tilheyrir Kína sama hvað á dynur sagði Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, í morgun eftir að úrslit héraðskosninga í Hong Kong sýndu yfirburði lýðræðissinna. Litið var á kosningarnar sem prófstein á hversu miklu fylgi mótmælendur eiga að fagna í Hong Kong.

Kjörsókn var vel yfir 70 prósent, og fengu lýðræðissinnar nærri níu af hverjum tíu sætum sem í boði voru í héraðskosningunum. Hingað til hafa öfl hlynnt kínverskum stjórnvöldum setið í meirihluta héraðsstjórna. Stærsti flokkurinn sem er hlynntur meginlandsstjórninni tapaði 155 af 182 sætum sínum, en á móti græddu flokkar sem styðja aukið lýðræði og sjálfsstjórn í Hong Kong 263 þingsæti miðað við síðustu héraðskosningar fyrir fjórum árum.

Wang sagði blaðamönnum að spyrja að leikslokum, ekki væri búið að telja öll atkvæði enn. Engar tilraunir til þess að skipta sér af málefnum Hong Kong, eða leggja velmegun og stöðugleika þess í rúst eiga eftir að ganga upp, sagði Wang eftir fund með Shizo Abe, forsætisráðherra Japans, í Tókíó í morgun. 

Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, sagðist taka skilaboðum kjósenda af auðmýkt. Hún sagði niðurstöðurnar sýna að íbúar Hong Kong séu ósáttir við stöðu mála og vandamál Hong Kong séu djúpstæð, án þess að fara nánar út í hver þau eru.