Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir náttúruhamfarir geisa í Skaftafellssýslu

25.06.2019 - 22:24
Þurrkar
 Mynd: Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir náttúruhamfarir hafa geisað í Vestur-Skaftafellssýslu marga daga frá í vor. Þær megi rekja til samspils þurrka og Skaftárhlaupa.

Frá þessu greinir Einar á Facebooksíðu sinni. Þar segist hann hafa ekið austur í Skaftafell í dag. Svo dimmur hafi mökkurinn verið við Brest í Eldhrauni að skyggni var ekki nema um 500 metrar. Allt hafi verið skraufþurrt. 

„Byrjaði austast á Mýrdalssandi ofan við Álftaver. Ágerðist við Kúðafljót og Eldvatn. Jökulleirinn frá síðasta Skaftárhlaupi í ágúst síðastliðinn rauk úr hrauninu og myndaði samfelldan brúngráan mökk frá Meðallandi upp í Skaftártungu sem vindur bar til austurs.“

Þá segir hann að á Klaustri hafi verið ólíft. Hann hafi þurft að keyra þar í gegn með lokað fyrir loftræstingu að utan. Ekki hafi mótað fyrir Lómagnúpi í austri fyrr en við Hverfisfljót en þar fyrir austan hafi loftið hreinsað sig að lokum.