Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Segir myndbandið ekki falsað

10.02.2012 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, segir af og frá að hann hafi sviðsett eða falsað myndbandið af Lagarfljótsorminum sem nú fer sigurför um heiminn. Hann hafi orðið var við eitthvað í ánni og ákveðið að mynda það sem fyrir augum bar. Hjörtur segist ekki vita hvað það er sem sést á myndbandinu

Hjörtur var að laga sér kaffi á fimmtudagsmorgni í síðustu viku þegar hann tók eftir einhverri hreyfingu í Jökulsá í Fljótsdal. Hann hafi ákveðið að mynda fyrirbærið út um eldúsgluggann en síðan fært sig út á tröppur. 

Myndbandið sem gæti verið af Lagarfljótsorminum hefur vakið mikla athygli um allan heim. Hátt í þrjár milljónir hafa horft á það á Youtube auk þess sem þættir á borð við Good Morning America hafa sýnt það. Margir hafa haldið því fram Hjörtur hafi sviðsett myndbandið og að það sé hann sem hreyfi það, sem virðist vera ormur, til og frá.

Þessu hafnar Hjörtur alfarið og segir það algerlega af og frá. Hann segir að sér hafi fundist fyrirbærið, sem svipaði til krókódíls, skrýtið og að það hafi virst synda á móti straumnum. Hann hafi því ákveðið að mynda það. Hjörtur segist ekki geta svarað því hvað það var sem hann myndaði, hann viti það ekki.

Hjörtur verður 67 ára á morgun. Hann hefur aldrei farið út fyrir landsteinanna og segist ekkert kunna á tölvur. Þegar hann myndaði Lagarfljótsorminn hafi frændi hans leiðbeint honum í gegnum síma. Ástæða þess að hann hafi ekki farið nær fyrirbærinu sé sú að hann hafi haft mestar áhyggjur af því að ná myndum sem væru nokkuð stöðugar.