Segir mótmæli gærdagsins „skipulagðar óeirðir“

13.06.2019 - 02:16
epa07643131 A protester falls down reacting on police during a rally against an extradition bill outside the Legislative Council in Hong Kong, China, 12 June 2019. The bill, scheduled for a second reading on 12 June has faced immense opposition from pan-democrats, the business sector, and the international community, would allow the transfer of fugitives to jurisdictions which Hong Kong does not have a treaty with, including mainland China. Critics of the bill have expressed concern over unfair trials and a lack of human rights protection in mainland China.  EPA-EFE/VERNON YUEN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Carrie Lam, æðsti embættismaður kínverska sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong, segir mótmæli síðustu daga gegn nýrri og afar umdeildri framsalslöggjöf sem heimilar framsal Hong Kong-búa til meginlands Kína, ekkert annað en „skipulagðar óeirðir." Segir hún að átökin sem brutust út milli mótmælenda og óeirðalögreglu í gær séu „algjörlega óásættanleg í öllum siðuðum samfélögum." 72 manneskjur á aldrinum 15 til 66 ára slösuðust í átökunum, þar á meðal tveir karlmenn sem hlutu lífshættuleg meiðsl.

Lögregla gekk fram af mikilli hörku og beitti hvort tveggja táragasi og kylfum óspart. Fresta þurfti annarri umræðu um nýju löggjöfina á löggjafarsamkundu Hong Kong í gær vegna mótmælanna við þinghúsið, en um helgina tóku allt að milljón manns þátt í friðsamlegum mótmælum af sama tilefni. Þrátt fyrir þetta segir Lam ekki koma til greina að hvika frá hinni boðuðu löggjöf.

Gagnrýnendur laganna benda á að pyntingar, handahófskenndar fangelsanir og þvingaðar játningar séu daglegt brauð á kínverska meginlandinu, þar sem hver sem er geti átt von á því að vera handtekinn og dæmdur fyrir það eitt að gagnrýna kínverska kommúnistaflokkinn og stjórnvöld í Peking. Þannig megi allt eins búast við því að nýju lögin verði notuð til að auðvelda alræðisstjórninni á meginlandinu að múlbinda gagnrýnendur sína í Hong Kong.

Þótt annarri umræðu um lögin hafi verið frestað um hríð er gert ráð fyrir að þau verði samþykkt þegar atkvæði verða greidd um þau hinn 20. þessa mánaðar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi