Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir morðið á Khashoggi þaulskipulagt

08.02.2019 - 10:59
Erlent · Asía · Khasoggi
Mynd með færslu
Agnes Callamard fyrir utan skrifstofur ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl 29. janúar. Hún fékk ekki að fara þangað inn. Mynd:
Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur að yfirlögðu ráði og morðið var skipulagt og framið af sádiarabískum embættismönnum. Þetta segir  Agnes Callamard, sem rannsakað hefur morðið fyrir hönd mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna. 

Khashoggi, sem skrifaði fyrir bandaríska blaðið Washington Post, var myrtur í skrifstofu ræðismanns Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október, en hann hafi þá gagnrýnt Mohammed bin Salman krónprins í skrifum sínum.

Yfirvöld í Tyrklandi segja að hópur manna hafi komið frá Sádi-Arabíu til Istanbúl í byrjun október í þeim tilgangi að ráða Khashoggi af dögum, þar á meðal nánir samstarfsmenn krónprinsins, en legið hafi fyrir vitneskja um að blaðamaðurinn ætlaði að sækja skjöl til ræðismannsins á þessum tíma. 

Callamard, sem nýkomin er úr rannsóknarferð til Tyrklands, segir að þau gögn sem hún hafi séð þar sýni að morðið hafi verið þaulskipulagt. Hún gagnrýnir stjórnvöld í Sádi-Arabíu fyrir að torvelda rannsókn málsins, en yfirvöld í Tyrklandi hafi fengið takmarkaðan aðgang og tíma til rannsóknar á vettvangi. 

Callamard kynnir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna niðurstöður rannsóknar sinnar  í júní.