Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir minnihlutann stunda „ljóta pólitík“

Mynd með færslu
 Mynd: Seyðisfjarðarlistinn - RÚV
Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, vísar á bug gagnrýni minnihlutans á ráðningarferli nýs bæjarstjóra. Vinnubrögðin einkennist af ljótri pólitík. Þrátt fyrir að fulltrúi Framsóknar og frjálslyndra hafi brotið trúnað hafi fulltrúum minnihlutans verið boðin mikil aðkoma að ferlinu, á nánast öllum stigum þess.

Aðalheiður Borgþórsdóttir hefur verið ráðin bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar. Starfið var auglýst laust til umsóknar 14. júní. Leitað var til Hagvangs þegar umsóknarfrestur var liðinn til að vinna úr umsóknum.

Minnihluti bæjarstjórnar á Seyðisfirði gagnrýnir hvernig staðið var að ráðningu bæjarstjóra og telur margt í því ferli verulega ábótavant. Fulltrúar minnihlutans eru til dæmis ósáttir við að hafa ekki fengið að koma að gerð auglýsingar um starfið. Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar, bendir á að Seyðisfjarðarlistinn hafi hlotið hreinan meirihluta í kosningunum og töldu sig hafa fullt umboð til að undirbúa ráðningu nýs bæjarstjóra. „Það er ekkert sjálfgefið að minnihlutinn sé með í svona ákvarðanatöku,“ segir Hildur.

Segir að fulltrúi minnihlutans hafi brotið trúnað

Þrátt fyrir það hafi fulltrúum minnihlutans verið boðið að koma að ferlinu í mun ríkari mæli en tíðkast víða annars staðar. Hafi þeir til dæmis fengið að vera viðstaddir í öllum viðtölum við umsækjendur. Fyrst var tekið viðtal við fjóra og síðan var fimmta viðtalinu bætt við. „Í millitíðinni gerist það að fulltrúi Framsóknarflokksins og frjálslyndra brýtur trúnað um það sem fram fór í fyrri viðtölunum. Því ákváðum við að óska eftir fundi með fulltrúum minnihlutans þar sem við ræddum um aðkomu hans að ferlinu og almennt um samstarf og samskipti á komandi kjörtímabili,“ segir Hildur. Þrátt fyrir þennan trúnaðarbrest hafi fulltrúum minnihlutans verið boðið að sitja síðasta viðtalið, en Framsóknarmenn og frjálslyndir hafi ekki þegið boðið. 

Ekki hægt að afhenda gögn vegna persónuverndar

Fulltrúar minnihlutans gagnrýna líka að meirihlutinn hafi staðið í vegi fyrir því að kjörnir fulltrúar fengju nauðsynleg gögn fyrir aukafund sem haldinn var vegna ráðningarinnar. Því telur minnihlutinn að umsækjendur hafi ekki fengið sanngjarna málsmeðferð. Hildur segir að óskað hafi verið eftir umræddum gögnum frá Hagvangi, en þau hafi ekki verið veitt á grundvelli trúnaðar og persónuverndar. Þetta séu niðurstöður úr persónuleikaprófum og punktar ráðgjafa úr viðtölum við umsækjendur. „Við fengum algjörlega skýr svör frá Hagvangi um að þetta væru upplýsingar sem Hagvangur lætur ekki úr húsi, ekki síst í ljósi nýju persónuverndarlaganna,“ segir Hildur. Fulltrúar meirihluta og minnihluta hafi fengið nákvæmlega sömu upplýsingar. 

Málatilbúningur sem falli um sjálfan sig

Hildur bendir á að Sjálfstæðismenn hafi lagt fram tillögu á aukafundinum um að ráða Arnbjörgu Sveinsdóttur í starf bæjarstjóra. Þessi tillaga hafi verið byggð á gögnum, sem minnihlutinn saki síðan meirihlutann um að hafa leynt. „Ef upplýsingum var haldið frá þeim, hvernig geta þeir komist að þeirri niðurstöðu að Arnbjörg Sveinsdóttir sé hæf? Okkur finnst þessi málatilbúningur minnihlutans falla um sjálfan sig,“ segir Hildur. „Þetta er bara ljót pólitík. Þetta eru bara flokkar sem hafa verið við völd í áratugi og þola það illa að hafa hlotið afhroð í kosningunum,“ segir Hildur. 

Engar áhyggjur af áliti ráðuneytisins

Minnihluti bæjarstjórnar ætlar að óska eftir áliti á málsmeðferðinni frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og úrskurði um aðgang að öllum gögnum viðkomandi í málinu. „Ég hef ekki nokkrar einustu áhyggjur af því. Ferlið var allt vel og fagmannlega unnið,“ segir Hildur. 
 

 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV