Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir lög á verkfall ekki leysa vandann

01.06.2015 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að lög á verkfall hjúkrunarfræðinga leysi ekki vandann heldur slái honum á frest. Lög á verkfall yrðu líklega til þess að fleiri hjúkrunarfræðingar hætti.

„Þetta er eitthvað sem við höfum heyrt áður og búumst svo sem við að sé í umræðunni þannig að þetta kemur okkur ekki á óvart. Hins vegar veit ég að þetta mun ekki leysa vandamálið heldur eingöngu fresta því og ég hef heyrt í hjúkrunarfræðingum sem halda því fram að þeir muni ekki sætta sig við að það verði farin þessi leið, að það væri nær að setjast niður og leysa málið.“

Ólafur segir að hjúkrunarfræðingar reyni að tryggja hjúkrun til framtíðar hér á landi, lög á verkfall þeirra gæti orðið til þess að fólk segi upp. „Ég hef heyrt í hjúkrunarfræðingum segja að ef sett verða lög þá láti þeir ekki bjóða sér það, en það er náttúrulega eitthvað sem hver og einn tekur ákvörðun um. En eins og ég hef sagt áður þá erum við í vegferð að reyna að tryggja hér hjúkrun til framtíðar og hafa hjúkrunarfræðinga til starfa á Íslandi. Við erum að missa þá í önnur störf og erlendis og ég held að þetta verði bara til að kynda það bál.“

Fleiri kjaradeilur eru óleystar. Ekki hefur verið boðað til samningafundar við BHM, en ríkið sleit viðræðum fyrir helgi. Kosningu iðnaðarmanna um hvort boða skuli til verkfalls lauk í morgun og verða niðurstöður kynntar eftir hádegið. Komi til verkfalls verða aðgerðir í tvennu lagi, annars vegar verkfall frá 10. til 16. júní og svo ótímabundið verkfall frá 24. ágúst, semjist ekki fyrir þann tíma.