
„Ríkisstjórnin tók við eftir töluvert langt ferli þar sem hafði gengið illa að koma saman meirihluta og það má í rauninni segja að þegar það loksins skýrðist hverjir mundu ná meirihlutanum, þetta er reyndar bara eins manns meirihluti, þá var ekki mikil stemmning. Það var ákveðin þreyta þegar í upphafi samstarfsins, að maður skynjaði,“ segir Stefanía.
Viðreisn og Björt framtíð hafa misst um eða yfir helming af fylgi sínu frá kosningum. Stefanía segir að kjósendur Bjartrar framtíðar hafi margir hverjir ekki verið spenntir fyrir samstarfi til hægri og kjósendur Viðreisnar hafi verið áhugasamir um breytingar, meðal annars í sjávarútvegi og þegar kæmi að Evrópumálum.
„En ríkisstjórnarsáttmálinn var í rauninni sáttmáli sem lagði ekki upp með nein stór plön um miklar breytingar eða róttækar, þannig að það má kannski segja það að þeir sem voru stuðningsmenn Viðreisnar í upphafi og jafnvel Bjartrar framtíðar og sáu fyrir sér breytingar, þeir hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessa ríkisstjórn,“ segir hún.
Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn hefur hins vegar haldist nokkuð stöðugur og Stefanía rekur það til þess hve traustur kjósendahópur hans er.
„Kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins hefur núna á síðustu árum verið í kringum 25% og þessar skoðanakannanir eru sí og æ að endurspegla það.“