Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir kjararáð setja kjaraviðræður í uppnám

08.11.2016 - 09:05
Mynd: RÚV / RÚV
Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að Alþingi verði að grípa inn í ef úrskurður kjararáðs samrýmist ekki launaþróun í landinu. Úrskurðurinn hafi sett kjaraviðræður sveitarfélaganna við kennara í uppnám.

 

Grunnskólakennarar hafa mótmælt kjörum sínum undanfarið, síðast í gær gengu þeir á fund borgarstjórans í Reykjavík og kröfðust bættra kjara. Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir stöðuna í deilunni grafalvarlega. „Þetta er staða sem er full ástæða til að hafa mjög miklar áhyggjur af vegna þess að þetta er ein mikilvægasta stétt sem um getur, kennarastéttin,“ sagði Halldór í Morgunútvarpinu á Rás 2  í morgun. 

Halldór segir að sumt í málinu hafi verið fyrirséð, eins og til dæmis þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm og sambandið hafi varað alvarlega við því að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir nýliðun  í stéttinni, en engu að síður hafi  breytingin verið gerð. Hann bendir á að á sínum tíma hafi verið gerðar breytingar á kennaranámi  í Danmörku og það gert aðgengilegra fyrir fólk með annars konar menntun. Full ástæða sé til að skoða ýmsar leiðir í stað þess að einblína á að námið eigi að vera fullt fimm ára nám.

Hann tekur undir að greiða þurfi kennurum góð laun. „ Ef við horfum á launaþróun síðustu þriggja ára þá hafa þau hækkað að meðaltali um 23%, þannig að við höfum verið að stíga mjög stór skref í að hækka laun á Íslandi. Svo stór að í rauninni má segja að við vorum heppin um leið að olíuverð lækkaði og við fengum enn fleiri túrista þannig að þetta gekk upp án þess að verðbólgan færi upp úr öllu valdi eins og yfirleitt þegar við hækkum laun svona mikið.“

Kjaraviðræðum kennara og sveitarafélaga hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og segist Halldór ekki geta tjáð sig um hvernig mál muni þróast. Kennarar eigi að fá eins há laun og mögulegt sé að greiða þeim, en fyrir því séu takmörk. Þá segir hann að ef það sé rétt, sem hann efist ekki um, að álag á kennara hafi stóraukist þá þurfi að gera ráðstafanir til að bæta úr því. "En ég held að við verðum að vera öll að vera algjörlega sammála um að við verðum að leita allara leiða til þess að  bæta þetta og koma tli móts við kennara. Og ég veit auðvitað að kjararáðsúrskurðurinn setti þetta svolítið í uppnám allt saman. Ég gagnrýndi úrskurðinn strax og hann kom fram og hef sagt að ef kjararáð er að fara umfram þróun á launamarkaði finnst mér að Alþingi eigi að grípa inn í,“ segir Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV