Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir Jón Steinar hafa brotið siðareglur

24.11.2017 - 18:18
Skúli Magnússon héraðsdómari, formaður dómarafélagsins og dósent í lögfræði við Háskóla Íslands.
 Mynd: RÚV
Formaður Dómarafélags Íslands segir að afskipti Jóns Steinars Gunnlaugssonar af dómsmáli meðan hann var hæstaréttardómari sé eitt skýrasta brot á siðareglum dómara sem hægt sé að hugsa sér. Jón Steinar vísar því á bug - hann hafði aðeins komið með lögfræðilegar ábendingar.

Aðalfundur Dómarafélags Íslands var haldinn í dag og beindu tveir af ræðumönnunum spjótum sínum að framgöngu Jóns Steinars Gunnlaugssonar fyrrverandi Hæstaréttardómara, sem sakaði dómara í máli Baldurs Guðlaugssonar um dómsmorð.

Skúli Magnússon formaður Dómarafélagsins segir að erfitt sé fyrir dómara að sitja undir svo alvarlegum ásökunum. „Og ef fjölmiðlar eða aðrir aðilar sjá ekki um að hreinsa svona óhróður upp þannig að hann dæmi sig í raun og veru sjálfur þá hljóta þeir á einhverjum tímapunkti að grípa til viðbragða sem þeir hafa þá samkvæmt lögum og ég lýsti ákveðnum skilningi á því.“

Þar vísar Skúli í málshöfðun Benedikts Bogasonar á hendur Jóni Steinari fyrir meiðyrði. Skúli gagnrýnir einnig að Jón Steinar hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöðu málsins í Hæstarétti, þó að hann hafi sjálfur lýst sig vanhæfan. „Sú atburðarrás sem hann hefur sjálfur lýst og sú aðkoma hans sjálfs sem hann hefur lýst í fjölmiðlum hún felur auðvitað í sér eitthvað það skýrasta brot á siðareglum dómara sem hægt er að hugsa sér.“

Jón Steinar vísar því til föðurhúsanna í samtali við fréttastofu að afskipti hans af máli Baldurs Guðlaugssonar sé brot á siðareglum. Hann hafi aðeins afhent þeim blað sem innihélt eingöngu lögfræðileg atriði í því skyni að hindra dómsmorð. Hann segist stoltur af að hafa reynt það með þessum hætti. 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV