Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segir IPA-styrki tæki til aðlögunar

10.08.2013 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra segir að nú hafi fengist staðfesting á því að IPA-styrkir Evrópusambandsins séu til þess ætlaðir að koma Íslandi inn í sambandið. Styrkirnir nýtist eflaust til góðra verkefna en það væri grundvallarstefnubreyting að byggja ríkisútgjöld á styrkjum.

Ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusamsambandið hefur leitt til þess að ESB hefur skrúfað fyrir IPA-styrki til fjölmargra verkefna hér á landi. Forsætisráðherra segir að þessi ákvörðun sambandsins sýni skýrt eðli og tilgang styrkjanna. Hann sé að laga umsóknarríkið að regluverki sambandsins og gera það í stakk búið að vinna í samræmi við regluverk ESB og þá sáttmála sem það byggi á.

Því þurfi ákvörðunin um að hætta að veita styrkina ekki að koma á óvart. „Við höfum fengið svipuð skilaboð í mörg ár ef land er að sækja um aðild að Evrópusambandinu felist í því yfirlýsing um vilja til að ganga þar inn. Og Evrópusambandið ætlist til þess að stjórnvöld vinni að því að koma landinu inn í Evrópusambandið. En það að menn skuli taka þessa ákvörðun meðan við erum enn með stöðu umsóknarríkis og vísa til þess að menn séu ekki að vinna að því að koma landinu þarna inn er þá staðfesting á þessu,“ segir Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð segir að íslensk stjórnvöld muni meta í hverju tilviki fyrir sig hvort þau leggi fé í sum verkefnin í stað styrkjanna. Hann segir eðlilegt að verkefni sem ekki séu farin af stað fái ekki styrki frá ESB en öðru máli gegni kannski um þau sem byrjað er að undirbúa.

“Ég tala nú ekki um þegar Ísland er með þessa stöðu umsóknarríkis. En þetta er þá bara eins og ég nefndi enn ein áminningin um það að tilgangur þessara styrkja er að koma landinu inn í Evrópusambandið, ekki að gera það í stakk búið til að taka ákvörðun um hvort það vilji ganga síðar inn eða ekki,“ segir Sigmundur Davíð. 

Stór verkefni sem áttu að fá styrkina eru í uppnámi, meðal annars hjá Fjármálaeftirlitinu, Matís og fleirum. Ja auðvitað eru þessir styrkir og eflaust margir hverjir notaðir til góðra hluta. En það væri grundvallarstefnubreyting í íslenskri pólitík og efnahagskerfi landsins ef við ætlum að fara byggja ríkisútgjöld til framtíðar á styrkjum,“ segir Sigmundur Davíð.