Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir Icewear fórnarlamb í mansalsmáli

20.02.2016 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Icewear, sem keypti þjónustu af manni sem grunaður er um mansal í Vík í Mýrdal, segist enga vitneskju hafa haft um mansalið. Tilviljun hafi ráðið því að samningum við manninn hafi verið rift á fimmtudag, sama dag og lögregla handtók manninn og frelsaði tvær konur af heimili hans.

Maðurinn og konurnar tvær eru frá Sri Lanka. Hann hafði stofnað fyrirtækið Vonta International fyrir tæpum tveimur árum ásamt eiginkonu sinni og hefur fyrirtækið meðal annars verið undirverktaki hjá Icewear.

Eiginkona mannsins hefur búið hér á landi í ellefu ár og mun lengur en eiginmaðurinn.  Hún var lengi starfsmaður hjá Víkurprjóni - líka eftir að Icewear keypti fyrirtækið. Ágúst Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Icewear, sagðist í samtali við fréttastofu ekki vilja tjá sig um málið fyrr en lögreglurannsókn væri lokið. Icewear líti á sig sem fórnarlamb í málinu og hann væri miður sín yfir því. Ágúst segir að Icewear hafi sagt upp samningi við Vonta, fyrirtæki mannsins, á fimmtudag vegna þess að laun hafi ekki verið greidd á réttum tíma. Ágúst segist enga vitneskju hafa haft um meint þrælahald og tilviljun hafi ráðið því að samningnum hafi verið sagt upp þennan sama dag. Þá hafi þeir fimm starfsmenn sem maðurinn hafi haft í vinnu, og eru hér með atvinnuleyfi, nú verið ráðnir til Icewear, þar á meðal eiginkona mannsins. 

Maðurinn mun hafa haft starfsaðstöðu í húsnæði Icewear á Austurvegi í Vík í Mýrdal. Þar hafði hann tvær eða þrjár sauma- eða prjónavélar og nokkra starfsmenn í vinnu. Konunum tveimur sem lögregla frelsaði var hins vegar haldið á heimili mannsins að Víkurbraut og þær hafðar þar í vinnu. 

Maðurinn hefur tvívegis verið úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart eiginkonu sinni.