Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir húsnæðismál ungs fólks vanta í frumvarp

08.09.2019 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson
Hagfræðingur ASÍ segist sjá þess lítinn eða engan stað í fjárlagafrumvarpinu, sem áður hafi verið rætt um í húsnæðismálum, það er  stuðning við ungt fólk og þá sem eru að kaupa fasteign í fyrsta sinn. Þó sé ánægjulegt að staðið verði við loforð um aukin framlög til leiguhúsnæðis fyrir lágtekjufólk. 

ASÍ ætlar að meta bein áhrif fjárlagafrumvarpsins á mismunandi tekjuhópa í vikunni. Henný Hinz hagfræðingur ASÍ benti á í fréttum í gær að þriðjungur af boðuðum tekjuskattsbreytingum kæmu til á næsta ári en tveir þriðju árið 2021 og sagði að tekjulægstu hóparnir hefðu ekki tíma til að bíða lengur. Þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í fyrradag kom fram að stjórnvöld hefðu flýtt skattabreytingunum úr þremur í tvö ár. 

Sex þúsund í urðunarskatt á fjölskyldu

Eitt af því sem kemur barnafólki og verðandi barnafólki til góða er að fæðingarorlof verður lengt úr níu mánuðum í tíu um áramótin og skerðingarmörk barnabóta hækka: 

„Þannig að þeir sem hafa tekjur frá 325 þúsundum upp að meðaltekjum munu njóta þess í hærri barnabótum,“ segir Henný. 

Þá hækka krónutölugjöldin um tvö og hálft prósent. Það á til dæmis við um áfengi, tóbak, eldsneyti, framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald. Þá verða lagðir á nýir umhverfisskattar: 

„Það sem snýr að heimilum þar er nýr skattur á urðun úrgangs, sem er gert ráð fyrir að verði 7,5 króna á hvert kíló úrgangs, og áætlað í frumvarpinu að svona hver fjögurra manna fjölskylda í dag muni greiða u.þ.b. sex þúsund krónur á ári í þennan nýja skatt. En þarna er auðvitað hvati fyrir heimilin til að draga úr úrgangi sem fer til urðunar.“

Plúsar og mínusar í húsnæðismálunum

Henný segir mjög jákvætt að stjórnvöld standi við loforð um að bæta við fé til stofnframlaga til að byggja leiguhúsnæði fyrir lágtekjufólk. 

„Hins vegar hvað varðar aðrar aðgerðir í húsnæðismálum, sem að hefur verið rætt um t.d. aukinn stuðning við ungt fólk og þá sem eru að koma nýir inn á húsnæðismarkaðinn, að þá sést þeirra lítill eða enginn staður í frumvarpinu að því er ég best fæ séð. Og sömuleiðis önnur húsnæðisstuðningskerfi eins og vaxtabæturnar og húsnæðisbætur til leigjenda. Þar er ekki gert ráð fyrir að bæta neinu í.“ 

Reyndin er sú, segir hún, að þáttur vaxtabótakerfisins hafi rýrnað mjög mikið á undanförnum árum, og það sé í raun hætt að þjóna hlutverki sínu sem stuðningskerfi fyrir þá sem séu að kaupa sér húsnæði.

Bótaþegar sitja eftir

Atvinnuleysisbætur og lífeyrir almannatrygginga eins og örorkubætur hækka um þrjú og hálft prósent. 

„Það sem vekur athygli í því samhengi er að þetta er auðvitað umtalsvert minni hækkun en til dæmis lægstu laun munu hækka um á næsta ári þ.a. það vekur sérstaka athygli.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Ingvarsson - RÚV
Henný Hinz.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV