Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir hlut kvenna mikil vonbrigði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir hlut kvenna í prófkjörum flokksins í gær mikil vonbrigði og að það sé mikil eftirsjá að Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem ætlar að hætta í stjórnmálum. Það sé í höndum kjördæmisráða að ákveða hvort framboðslistum verði breytt.

 

Alþingiskonurnar Elín Hirst, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra báru skarðan hlut frá borði í prófkjörum gærdagsins. Elín var ekki meðal sex efstu í Suðvesturkjördæmi og í Suðurkjördæmi lenti Unnur Brá í fimmta sæti og Ragnheiður Elín í því fjórða, á eftir þeim Páli Magnússyni sem varð efstur, Ásmundi Friðrikssyni og Vilhjálmi Árnasyni. Ólöf Nordal varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir konur hafa náð góðum árangri í Reykjavík og Norðvesturkjördæmi.

„En þegar litið er til prófkjöranna í gær þá ætla ég ekki að draga dul á það að það voru mikil vonbrigði hvernig niðurstaðan varð,“ segir Ólöf

Hún segir ekki einfalt að útskýra hvers vegna niðurstaðan varð þessi, prófkjör séu prófkjör og fólk sækist eftir mismunandi sætum, þá geti kjördæmi verið svæðisskipt eins og til dæmis Suðurkjördæmi. Sjálfstæðisflokkurinn hafi á undangengnum árum lagt mikla áherslu á jafnan hlut kynjanna og það hafi á síðasta landsfundi verið sett inn í grunngildi flokksins. Sjálf hvetji hún konur til að sækjast eftir sætum ofarlega. Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að fara þessa leið í vali á lista, en gallarnir séu þekktir. 

Í lögum Sjálfstæðisflokksins er heimild fyrir kjördæmaráð að breyta framboðslistum eftir prófkjör hafi kjörsókn verið undir 50 prósentum og þeir sem kjörnir voru ná ekki helmingi atkvæða. Framboðslistarnir fara því nú til kjördæmaráða þar sem gengið verður frá þeim. Ólöf segist trúa því að kjördæmaráðin líti til allra þátta og niðurstöðu þeirra sé beðið. En hver er hennar skoðun, á að breyta listunum?

„Ég held nú að þetta sé dálítið vandmeðfarin spurning. Maður þarf líka að líta til þess að fólk sem sækist eftir sæti á listum  leggur sig allt fram og hlítir niðurstöðu kjósenda, á sama tíma verðum við líka að líta til þess sem er að gerast í umhverfinu í kringum okkur og hver raunverulegur vilji kjósenda er og það er svolítið erfitt að lesa oft í það þegar um próflkjör er að ræða hver vilji einstakra aðila er í því. En ég held að við þurfum að skoða þetta og læra af þessu til framtíðar eins og alltaf, þetta er ekkert nýtt, en ég hins vegar legg áherslu á það að ef við lítum til landsins í heild þá er árangur sjálfstæðiskvenna víða mjög góður.“

Hvorki Unnur Brá Konráðsdóttir né Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa gefið kost á viðtali í dag. Ragnheiður Elín birti færslu á Facebook síðegis þar sem hún fer stuttlega yfir stjórnmálaferil sinn og segir að með sama hætti og hún hafi fagnað skilaboðum sem fólust í sigrum, meðtaki hún skilaboð gærdagsins. Hún hafi því ákveðið að láta staðar numið og kveðji stjórnmálin að loknu kjörtímabilinu. 

„Ég get bara sagt það hér að það er mikil eftirsjá að Ragnheiði Elínu Árnadóttur,“ segir Ólöf Nordal.

Það var víðar sem þingkonur fóru illa út úr vali á lista. Valgerður Bjarnadóttir hafnaði í fimmta sæti í Reykavík og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir í þriðja sæti í Norðvesturkjördæmi og ætlar hún ekki að taka það sæti.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV