Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir heræfingu hafa valdið tjóni á skógrækt

21.10.2018 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Skógræktin telur ljóst að tjón hafi orðið á birkiskógrækt í Þjórsárdal þegar heræfing fór þar fram í gær. Starfsmenn Skógræktarinnar ætla að fara og meta tjónið á morgun.

Um 300 bandarískir landgönguliðar tóku þátt í heræfingu í Þjórsárdal í gær, sem var liður í áherslu Atlantshafsbandalagsins á að auka þekkingu á vörnum í köldu loftslagi. Í æfingunni fólst meðal annars að setja upp tjaldbúðir. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu átti að leggja sérstaka áherslu á að valda engum náttúruspjöllum eða skemmdum á menningarverðmætum.

Fólk sem mótmælti æfingunni í Þjórsárdal í gær vakti athygli á því að æfingin fór fram á svæði þar sem birkitré höfðu nýlega verið gróðursett. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, segir að þarna hafi verið unnið að uppgræðslu birkiskóga undanfarin 15 ár. Tilgangurinn sé meðal annars að stöðva öskufok frá Heklugosi.

„Það var búið að kynna þetta mál fyrir sveitarstjórn og Skógræktinni í vikunni. Þá kom fram að það ætti bara að ganga eftir Sundlaugarveginum svokallaða inn að Reykholti, og að það ætti ekkert að fara út fyrir þann veg. Þannig að það kemur mér á óvart að þeir hafi slegið upp tjaldbúðum þarna inni á skógræktarsvæðinu,“ segir Hreinn.

Heldurðu að það hafi valdið einhverju tjóni á þeirri skógrækt sem þarna er?

„Við sjáum að það hefur eitthvað verið rifið upp af plöntum og eitthvað traðkað niður. En við þurfum bara að skoða þetta á morgun og meta hvort það hafi orðið miklar skemmdir. Það er svolítið sérstakt að þarna skuli heræfingu vera beint inn á svona svæði þar sem verið er að vinna að uppgræðslu, sérstaklega á þessum síðustu tímum þegar skógrækt á að vera eitt af stóru málunum í sambandi við loftslagsvernd. Og að valda jafnvel skemmdum á skóginum, það er svolítið sérstakt.“

Og þú ætlar að fara þarna upp eftir og meta hugsanlegt tjón?

„Já við ætlum að fara og meta hvort eitthvað hefur skemmst að ráði,“ segir Hreinn.