Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Segir hættulegt að standa í rútunni

12.02.2012 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Strætó stefnir öryggi farþega sinna í voða með því að leyfa þeim að standa í rútum á akstursleiðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mat Umferðarstofu sem hefur tekið málið upp við innanríkisráðuneytið.

Umferðarstofa hefur miklar áhyggjur af öryggi farþega Strætó, sem er heimilt að standa á akstursleiðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þar sé umferðarhraði meiri en í þéttbýli og aðstæður hættulegri.

Fyrirtækið Hópbílar sinnir akstri fyrir Strætó, meðal annars á milli Reykjavíkur og Selfoss, og Reykjavíkur og Akraness. Á báðum þessum leiðum geta farþegar staðið í vögnunum ef setið er í öllum sætum. Umferðarstofa er ekki sátt við þetta fyrirkomulag. Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu segir þetta vera út fyrir þau öryggismörk sem menn vilji þar draga og þetta sér í rauninni ekki í lagi. 

Einar segir að margir farþegar hafi áhyggjur af stöðu mála. 
„Okkur hefur borist fjöldi kvartana, fólk hefur lýst yfir áhyggjum sínum með þetta og við gerum það einnig. Við tökum undir þessar áhyggjur og höfum gert það meðal annars beint við Strætó.“

Þar á bæ hafi menn hins vegar staðið á sínu, því hafi Umferðarstofa farið lengra með málið.

„Umferðarstofa hefur farið þess á leit við innanríkisráðuneytið að við förum yfir þessi mál og skoðum vandlega. Vonandi verða settar einhverjar reglur sem koma í veg fyrir að öryggi farþega verði stefnt í voða eins og við teljum að gert sé í dag.“

Einar segir þó að engin umferðarlög séu brotin með þessu, enda sé í þeim gert ráð fyrir ökutækjum þar sem farþegar mega standa.

„Hins vegar vantar í rauninni að setja ákveðnar reglur um notkun þessara tækja þar sem notkunin yrði takmörkuð með tilliti til umferðaröryggis. Mönnum sé til dæmis ekki kleift að láta farþega standa utan þéttbýlis, þar sem hraðinn er miklu meiri og hættulegri aðstæður.“

Ekki náðist í Reyni Jónsson, framkvæmdastjóra Strætós.