
Segir ganga misvel að uppfylla skilyrðin
Slitabú föllnu bankanna hafa nú rúmar tólf vikur til að uppfylla stöðugleikskilyrðin sem kynnt voru í Hörpu í sumar. En þau eru hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna losunar fjármagnshafta.
Forsætisráðherra segir að farinn sé að styttast verulega sá tími sem slitabúin hafi til að klára þetta. Það sé alls ekkert gefið að það takist: „Mér heyrist að það gangi svona misvel hjá slitabúunum að uppfylla þessi skilyrði. Takist það ekki að uppfylla þessi skilyrði þá er bara skattaleiðin augljós".
En hvað kemur í veg fyrir að skilyrðin séu uppfyllt?
„Það er alveg eðlilegt menn vilja helst ekki gera meira en þarf. Það er hins vegar mjög mikilvægt að þessir aðilar geri sér grein fyrir því að stjórnvöld sætti sig aldrei við minna en það sem þarf. Það mun alltaf þurfa að uppfylla þessi skilyrði og sí hefur það hlutverk að passa uppá það. Takist það ekki þá er hin leiðin tiltölulega einföld - skattaleiðin".
InDefence hafa, síðan aðgerðaáætlunin var kynnt, gagnrýnt nokkuð ógagnsætt afnámsferli, meðal annars í bréfi til seðlabankastjóra og viðskiptanefndar Alþingis. Segja þeir að almenningur þurfi að fá staðfestingu á því að skilyrðin séu jafngild aðgerð og stöðugleikaskatturinn.
Sigmundur Davíð segir þetta jafngildar leiðir. Sumir telji raunar stöðugleikaskilyrðaleiðina betri vegna þess að hún aðlagi sig að umfangi vandans sama hversu stór hann reynist og hvernig hann breytist. Þá muni þetta alltaf duga til að leysa hann.
En má ekki auka enn á upplýsingarnar?
„Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu. Raunar hefur þetta verið birt og var gert að töluverðu leiti í hörpu þegar þetta var fyrst kynnt. Það sem hefur kannski vantað upp á eru útskýringar, að menn skilji nákvæmlega hvað í þessu felst. Það má ekki gleyma því hlutverki stjórnvalda líka að útskýra ekki bara að birta upplýsingar um hvað í þeim felst", segir forsætisráðherra.