
Sigmundur Davíð segir að það hafi ekki verið vilji fyrir hendi hjá þingflokkunum að hækka gjaldskrár. „Það á meðal annars við um þetta gjald en með þessari lausn menntamálaráðherra er verið að bæta í, sérstaklega í framleiðslu á íslensku efni,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann segir að auk þess megi ekki gleyma því að það muni skila auknum auglýsingatekjum og jafnvel sölu á þessu efni til Norðurlandanna, Þýskalands og annarra landa. „Þannig að á heildina litið þá verða þetta miklu meiri tekjur en þessar 175 milljónir.“
En það blasir við erfið fjárhagsstaða hjá Ríkisútvarpinu þegar útvarpsgjaldið er lækkað, sérðu fyrir þér hvernig það á að bregðast við því? „Það verður auðvitað samið um það við menntamálaráðherrann með þjónustusamningi. Í þeim samningi geri ég ráð fyrir að menn taki tillit til aðstæðna en með þessari lausn ráðherrans þá á að vera hægt að sækja fram á ýmsan hátt.“