Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir framboðsskort á fersku grænmeti yfirvofandi

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Áhrif kórónuveirufaraldursins á íslenskan landbúnað og sjávarútveg voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þegar er farið að bera á töfum á innfluttu grænmeti hjá Samkaup. Fyrirtækið segir að í núverandi stöðu anni íslensk framleiðsla ekki eftirspurn.

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra bar málið á borð ríkisstjórnar og sagðist fylgjast náið með þróuninni.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að grænmetisframleiðendur úti í heimi séu hættir að geta tryggt full afköst og skortur á framboði sé fyrirséður. Fyrirtækið hefur skorað á ráðherra að auka við innlenda framleiðslu.

„Það sem við sjáum gerast í Evrópu er að framboð er á niðurleið. Það þýðir að verð mun væntanlega hækka og við erum þegar farin að sjá það hækka. Þegar við sjáum verðhækkanir á innfluttum vörum þá höfum við áhyggjur af því að innlend framleiðsla muni ekki geta staðið undir þeirri auknu eftirspurn sem myndast þegar þessi ójafna kemur inn,“ segir Gunnar Egill.

Nauðsynlegt að auka í nú þegar

Hann segist binda vondir við aðgerðir ríkisstjórnar og nefnir niðurgreiðslu á raforkuverði og beingreiðslur sem mögulegar lausnir. Nauðsynlegt sé að bæta í framleiðslu nú áður en skortur á framboði verður raunin.

„Það er ekki eins og það sé hægt að byrja í dag og vera tilbúinn með aukið framboð í næstu viku. Það tekur allt að sex til átta vikur að auka framleiðslu,“ segir hann.

Hægt að auka afköst um 10-15%

 Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, tekur undir með Gunnari Agli og fagnar stuðningi fyrirtækisins við íslenska grænmetisrækt. Hann segir tækifæri til aukinnar framleiðslu hjá grænmetisbændum. Gróðurhús séu vissulega ekki byggð á einum degi en með niðurgreiðslu á raforkuverði væri líklega nú þegar hægt að auka afköst um tíu til fimmtán prósent.