Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir framboð Þórdísar engu breyta

24.02.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmis, ígrundar framboð til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Í samtali við fréttastofu segir Haraldur að framboð Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur sé alls ekki óvænt en það breyti engu um það hvort hann bjóði sig fram í varaformannsembættið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar, tilkynnti um framboð sitt til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum í dag. Kosið verður um embættið á landsfundi um miðjan mars.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, hefur gegnt embætti varaformanns frá því Ólöf Nordal féll frá fyrir ári. Áslaug Arna sagði í Vikulokunum á Rás eitt í morgun að hún ætli að gefa kost á sér sem ritari en ekki að bjóða sig fram í varaformannsembættið. Hún fagnar framboði Þórdísar. 

Haraldur Benediktsson er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þórdís er í öðru sæti. Haraldur sagðist í samtali við fréttastofu RÚV í morgun vera að íhuga framboð til embættis varaformanns og telur viðbúið að fleiri muni lýsa áhuga á embættinu. Hann segir að margir hafi hvatt hann til að bjóða sig fram. 

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir að þrýst hafi verið á um að kona verði valin til varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Fram kom í fréttum í gær að Haraldur væri að ígrunda framboð og Stefanía segir að tímasetning yfirlýsingar Þórdísar sé ekki tilviljun.

„Hún er að gefa skilaboð til Haraldar um að hún sé að bjóða sig fram og hann skuli ekki hugsa meira um það. Hins vegar er hún fyrir neðan hann á lista í Norðvesturkjördæmi svo það er eins og hún sé að senda honum skilaboð um að hugsa ekki meira um þetta,“ segir Stefanía.

Haraldur er sama sinnis. Hann segir í samtali við fréttastofu að framboð Þórdísar sé alls ekki óvænt en það breyti engu um það hvort hann bjóði sig fram í varaformannsembættið. Haraldur segir að málið snúist um ásýnd Sjálfstæðisflokksins og breidd. Bakgrunnur hans og Þórdísar sé gerólíkur og því sambandi bendir Haraldur á að hann gegni búmennsku. Haraldur ætlar að greina frá því í næstu viku hvort hann bjóði sig fram til varaformanns.  

Stefanía vill þó meina að málefnalega sé ekki mikill munur á Þórdísi og Haraldi. „Þetta snýst um frama frekar heldur en einhvern málefnalegan klofning og þessa spurningu um forystu og kynjavíddina og svo framvegis,“ segir Stefanía.