Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir fráleitt að ákveða kjördag

26.07.2016 - 19:33
Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV
Formaður Framsóknarflokksins reiknar með að hafa heilmikið um það að segja hvenær boðað verði til kosninga þrátt fyrir að sitja ekki í ríkisstjórn. Hann telur fráleitt að ákveða kjördag á næstu dögum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir það engum vafa undirorpið að þegar Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson lofuðu alþingiskosningum í haust þá hafi það verið þeim skilyrðum háð að öllum ætlunarverkum ríkisstjórnarinnar væri lokið. Þar nefnir hann sérstaklega verðtrygginguna og áform um að koma á heilbrigðu fjármálakerfi.

Og menn geta svo velt fyrir sér hvort það var of mikil bjartsýni að gera ráð fyrir því að það gæti tekist fyrir haustið, fyrir september, október, en hvað sem því líður þá hefur þetta alltaf verið sett í samhengi við þessi verkefni

 Sigmundur segir í bréfi sínu til flokksmanna sinna að það hafi fyrst og fremst verið sjálfstæðismenn sem hafi viljað flýta kosningum til haustsins.

Það var alveg skýr afstaða allra þingmanna flokksins sem tjáðu sig um málið að þetta þyrfti að haldast í hendur við það að við kláruðum þau verkefni sem við lofuðum að klára. Hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn, þá held ég það séu ekki endilega allir Sjálfstæðismenn á því að flýta kosningum. Þvert á móti, ímynda ég mér og mér hefur heyrst að stór hluti sjálfstæðismanna vilji fyrst og fremst að flokkurinn þeirra standi við stjórnarsáttmálann og skili af sér góðu kjörtímabili

Stjórnarandstaðan hefur þrýst mjög á að kjördagur verði ákveðinn sem fyrst. Sigmundur er á allt öðru máli.

Það væri náttúrlega alveg fráleitt fyrir ríkisstjórnina að fara að negla niður einhverja dagsetningu á meðan hún veit ekki í hvað stefnir með málin. Þá væri hún til dæmis svo ég tali nú bara hreint út að gefa upp með það að stjórnarandstaðan gæti farið í málþóf fram að kosningum og menn gætu ekki klárað eitt einasta mál.

Hægt er að hlusta á lengri útgáfu af viðtalinu við Sigmund Davíð í spilaranum hér að ofan. 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV