Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, ásamt Francois Hollande forseta í París í gær. Mynd: EPA

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Segir Frakka í stríði við Íslamska ríkið
15.11.2015 - 09:06
Frakkar eru í stríði og munu beita róttækum aðgerðum til að hafa uppi á þeim sem stóðu á bak við hryðjuverkin í París í fyrrakvöld. Ekki einungis í Evrópu, heldur einnig Írak og Sýrlandi.
Þetta sagði Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, í gærkvöldi, eftir að vígasamtökin Íslamska ríkis höfðu lýst á hendur sér árásunum í París. Valls sagði að Frakkar myndu vinna þetta stríð. Haldið yrði áfram loftárásum á sveitir og bækistöðvar Íslamska ríkisins í Írak og Sýrlandi.
Valls sagði að neyðarlög sem sett hefðu verið á í París og nágrenni eftir hryðjuverkin yrðu útvíkkuð um allt land, þannig að yfirvöld fengju auknar heimildir til að berjast gegn vel skipulögðum óvini eins og hann orðaði það.