Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir fólk hafa lagt fyrr af stað í fríið

02.08.2019 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir
Umferðin út úr bænum hefur gengið vel fyrir sig í dag að sögn Árna Friðleifssonar aðalvarðstjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að samkvæmt mælingum hafi verið 44 prósentum meiri umferð í gær heldur en á fimmtudaginn fyrir viku. Það sé merki um það að fólk hafi lagt fyrr af stað í fríið.

Árni segir frábært veður spila inn í dreifða umferð. Engin alvarleg umferðaróhöpp hafi orðið í dag. Hann segir lögregluna fylgjast vel með hraðanum á þjóðvegum í kringum höfuðborgarsvæðið næstu daga. Í dag og í gær hafi lögreglan verið með hraðamælingar á Suðurlandsvegi. Árni segir að þrátt fyrir að flestir sýni mjög góða aksturshegðun þá séu alltaf einhverjir sem keyri of hratt. Árni segir að sá sem ók hraðast í dag hafi mælst á 140 kílómetra hraða, „sem í þessari þéttu umferð er glórulaust.“

Þétt og mikil umferð

Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Inga Hjörvarssyni, varðstjóra hjá lögreglunni í Borgarnesi, hefur umferðin verið mjög mikil en gengið vel fyrir sig. Þá sé umferðin búin að vera mjög stöðug frá því um hádegisbil. Sama var uppi á teningnum hjá lögreglunni á Selfossi í dag. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, segir umferðina mikla en að engin óhöpp hafi orðið. Hann ráðleggur fólki sem er þarf að mæta á tilteknum tíma, líkt og í Herjólf, að leggja tímanlega af stað. Það megi búast við töfum á leiðinni. 

Þjóðhátíðargestir hafa tekið vel í nýjan Herjólf

„Það er búið að vera þungur straumur frá því í gær,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs. Hann segir viðtökur á nýja Herjólfi mjög góðar. Mikil ánægja sé með bátinn og allt hafi gengið vel hingað til. Guðbjartur segir siglingaraðstæður góðar. Sjórinn sé rennisléttur, enginn vindur og ágætis hiti. Hann segir að markmiðið sé að koma öllum þeim sem vilja yfir til Eyja yfir helgina. „Við verðum alla helgina í því, fólk er að koma á morgun og sunnudag. Síðan byrjum við að ferja fólk til baka á mánudaginn.“

Á Vesturlandi getur hitinn fari upp í 20 gráður

Um helgina má búast við hægum vindum og björtu veðri inn til landsins. Þar sem er bjartast verður hlýjast að sögn Daníel Þorlákssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Á Vesturlandi geti hitinn náð 20 gráðum og annars staðar inn til landsins allt að 18 stigum. Við ströndina getur hitinn þó verið á bilinu átta til þrettán stig.