Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir flóttamannabúðir ekki skepnum bjóðandi

20.11.2019 - 16:26
epa07042203 People are seen in a makeshift camp that is set outside the refugee camp of Moria, Lesvos island, Greece, 23 September 2018. Efforts to relieve overcrowding that have stretched facilities at the reception and identification centre to breaking point are now underway, with 400 scheduled to leave for the mainland on 24 September and another 1,080 within the week. The total number of migrants and refugees officially residing on Lesvos is currently 10,841 as of September 21, of which 8,706 live in Moria. The camp is divided into a bewildering puzzle of zones and sections, including a 'safe zone' where access is restricted to the unaccompanied underage girls that live there and staff that work there, as well as areas for new arrivals, a neighbouring olive grove managed by an NGO, all of which comprise the anarchic "town" that has grown around the Moria camp.  EPA-EFE/PANAGIOTIS BALASKAS  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Grikkir ætla að loka þremur stærstu flóttamannabúðunum á eyjunum Lesbos, Kíos og Samos. Ástandið í þeim er sagt slæmt. Stjórnandi danskra hjálparsamtaka segir að einar búðir á Lesbos séu ekki einu sinni skepnum bjóðandi.

Í staðinn fyrir flóttamannabúðirnar sem til stendur að loka verða reistar nýjar á eyjunum þremur og á Kos og Leros til viðbótar. Áætlað er að í hverjum þeirra verði fimm þúsund manns og að þær verði lokaðar.

Yfirmaður flóttamannahjálpar grísku stjórnarinnar sagði þegar hann kynnti áætlunina að aðbúnaður væri slæmur í búðunum sem til stendur að loka. Undir það tekur Helle Blak, yfirmaður dönsku hjálparsamtakanna Team Humanity, í viðtali við danska ríkisútvarpið. Hún segir að í Moria búðunum á Lesbos sé ástandið þannig að það sé ekki einu sinni skepnum bjóðandi. Þær eru gömul herstöð með húsakost sem rúmar þrjú þúsund manns. Þar búa fimmtán þúsund flóttamenn. Margir hafast við í tjöldum utan sjálfra búðanna, sumir hafa komið sér fyrir í pappakössum undir ólífutrjám í nágrenninu.

Danski hjúkrunarfræðingurinn Mie Terkelsen sem starfar í búðunum segir að heilsufar flóttafólksins sé slæmt. Á það herji til dæmis húðsjúkdómar, lús og kláðamaur vegna þrengslanna. Magakveisa segir hún að sé algeng, með uppköstum og niðurgangi.

Terkelsen segir að hreinlætisaðstaða sé hörmuleg. Salerni séu allt of fá og fólk geti ekki þrifið sig sómasamlega. Þá eigi flóttafólkið erfitt með að nálgast mat og vatn. Um síðustu helgi hafi níu mánaða barn til dæmis dáið í búðunum úr ofþornun.