Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir flokkinn vilja almenningsvæða bankana

24.09.2016 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn ætla að lækka skatta og setja bankana á markað. Þetta sagði hann í ræðu sinni á flokksráðsþingi Sjálfstæðisflokksins. Bjarni segir brýnt að selja bankana til almennings. Þá segir hann tekjuhlið ríkisfjármálanna ekki vera vandamál. Tekjurnar ráðist fyrst og fremst af vexti og viðgangi í atvinnulífinu. Hann segir vinstri flokkana einungis vilja hækka skatta.

„Eftir því sem árin líða þá sýnist mér að þeir geti bara aldrei lifað eitt það einasta ár þar sem þeir eru ekki að leita að tilefni til að hækka skatta. En tekjuhlið ríkisfjármálanna er ekki sjálfstætt efnahagslegt vandamál okkar Íslendinga í dag. Og menn verða að fara að átta sig á því að tekjuhlið ríkisfjármálanna ræðst fyrst og fremst af vexti og viðgangi atvinnulífsins og það er ætlast til þess af okkur, af fólkinu sem stendur undir öllum þessum skattgreiðslum, að við á hverjum tíma tökum ekki meira af fólki eða af atvinnulífinu í skatta og gjöld en nauðsyn ber,“ sagði Bjarni í ræðu sinni, en hún er aðgengileg í heild sinni á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni sagði í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins að mörg af þeim framboðum sem bjóða fram í alþingiskosningum lofi, líkt og þeir séu að leika sér í Frúnni í Hamborg.

„Það eru heilu framboðin sem virðast hafa verið mótuð um ekkert annað heldur en stór útgjaldaloforð í allar áttir. Það er ágætt að muna að stundum er sagt að það er fátt í heiminum jafnókeypis og annarra manna fé. Við tökum ekki þátt í þessum leik. Við þekkjum því miður of mörg dæmi í sögu Íslands um skelfilegar, afar slæmar afleiðingar óstjórnar í ríkisfjármálum með tilheyrandi verðbólgu, látlausum óstöðugleika sem skilar sér bara í óöryggi fyrir heimilin í landinu,“ sagði Bjarni.

„Við Sjálfstæðismenn ætlum áfram að halda áfram á braut hallalausra ríkisfjármála. Við ætlum að tryggja hallalausan ríkisrekstur áfram. Vegna þess að það er aðeins með ábyrgri stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála sem við getum lagt traustan grunn að sókn á öllum sviðum samfélagsins,“ sagði Bjarni.

 

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV