Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir fátækt félagslega útilokun sem meiði

05.03.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert hefur breyst varðandi fátækt á Íslandi síðustu tuttugu ár, segir Bjarni Karlsson siðfræðingur. Fátækt sé ekki bara efnislegur skortur heldur líka niðurlægjandi félagsleg útilokun.

Fjallað var um fátækt í fréttaþættinum Kveik í fyrrakvöld. Þar var rætt við fólk sem býr við ýmsar aðstæður, en á það sameiginlegt að þurfa að velta hverri krónu fyrir sér. Formaður Öryrkjabandalags Íslands sagði í fréttum í gær að umfjöllunin gæfi raunsanna mynd og sagði lág laun fjölga öryrkjum. Hún sagði um 40% þeirra sem koma nýir inn á örorku á hverju ári vera konur um og yfir fimmtugt sem hafa verið á lágum launum. Bjarni Karlsson siðræðingur og prestur er að leggja lokahönd á doktorsritgerð um fátækt. Hann hefur undanfarna tvo áratugi skoðað stöðu fátækra í samfélaginu og reynt að skilja í hverju skorturinn er fólginn og segir að sér hafi blöskrað tvennt. Annars vegar:

„Hvað fólk líður miklar þjáningar, fátækt er ekki bara skortur á efnislegum gæðum, heldur ekki síður félagsleg útilokun sem meiðir og niðurlægir.“

Bjarni segir umfjöllun Kveiks hafa sýnt það vel.

„Hitt sem mér blöskrar enn frekar eftir því sem árin líða er sú staðreynd að ég sé bara engar breytingar verða. Það eru bara alltaf á hverjum tíma einhver sex þúsund börn sem lifa við fátækt og félagslega útilokun og eyðileggingaráhrifin af þeirri staðreynd blöstu við okkur með átakanlegum hætti í orðum þeirra sem tjáðu sig í þættinum.“

Aðspurður hvers vegna þetta sé svona segir Bjarni að við eigum erfitt með að greina samhengi.

„Við höldum, til dæmis, að hagvöxtur sé sama og fjárstreymi, en við sjáum ekki að mannslíf og náttúra geta visnað þótt að hagvöxtur aukist tímabundið. Okkur skortir félagslegt innsæi, okkur skortir vistkerfislæsi og skilning á raunverulegum hagvexti.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV