Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir fanga með fötlun njóta minni þjónustu

06.07.2018 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga, segir að fangar með fötlun hér á landi búi við erfiðari aðstöðu en aðrir. Hann fullyrðir að taka eigi fanga af nauðsynlegum lyfjum vegna þess að hann hafi verið fluttur af Kvíabryggju í lokaða fangelsið á Hólmheiði.

Guðmundur Ingi staðhæfir að læknir fangelsins hafi tilkynnt fanganum að hann yrði tekinn af nauðsynlegum ADHD-lyfjum sem hann hafi fengið leyfi fyrir að taka á Kvíabryggju. „Búið að tilkynna honum að það eigi að taka þessi lyf af honum. Þessi lyf eru á bannlista og það eigi að taka þau af honum, reglur eru strangari á Hólmsheiði en í opnum fangelsum,“ segir Guðmundur.

Ásthildur Magnúsdóttir staðgengill forstöðumanns fangelsisins á Hólmsheiði, segir að þau geti ekki tjáð sig um einstök mál. „Lyfjamálin eru á forræði á heilbrigðisyfirvalda. Við getum ekkert tjáð okkur um þau. Við fáum skammta frá læknunum sem við dreifum til fanga,“ segir Ásthildur í samtali við fréttastofu.

Afstaða, félag fanga, gagnrýnir Fangelsismálastofnun vegna máls fangans á Facebook. Guðmundur Ingi segir jafnframt að sturtuaðstaða fangelsisins á Hólmsheiði hafi ekki hentað þessum tiltekna fanga. Ásthildur vísar því á bug að fanginn hafi ekki komist í sturtu. „Það þurfti að gera lagfæringar á sturtuaðstöðu inn á klefa fyrir fatlaða. Það hefur þegar verið gert og endurbætt sturtuaðstaða tekin í notkun,“ segir Ásthildur.

Þá gagnrýnir Guðmundur aðstöðu fanga með fötlun á Íslandi. „Staðreyndin er sú að fatlaðir fangar búa við erfiðari aðstæður heldur en aðrir. Þeir fá ekki sömu framgöngu og aðrir fangar. Sumir þurfa að vera lengur í fangelsi en ófatlaðir fangar. Vernd getur ekki tekið við öllum föngum, þar eru erfiðar aðstæður eins og stigar sem gera fötluðum erfitt fyrir að vera á Vernd. Fatlaðir fangar njóta minni þjónustu en aðrir,“ fullyrðir Guðmundur.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV