Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir eðlilegt að endurskoða aflareglu loðnu

11.02.2020 - 13:56
Mynd með færslu
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.  Mynd:
Fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir eðlilegt að endurskoða gildandi aflareglu fyrir loðnu. Þó sé ekki sjálfgefið að það breytti einhverju varðandi útgefinn kvóta. Mæld voru tæp 250 þúsund tonn í síðasta rannsóknarleiðangri sem dugir ekki til að leyfa veiði.

Þó enn eigi eftir að meta nákvæmlega gögn úr þeim rannsóknarleiðangri sem nú er nýlokið segir Birkir Bárðarson leiðangursstjóri að nú sé unnið með áætlaða tölu sem gefin var út með fyrirvara.

Gæti þurft 100-250 þúsund tonn í viðbót

„Okkur sýnist að þetta verði einhversstaðar á bilinu 200 til 250 þúsund tonn,“ segir hann. „Það er ljóst að það muni ekki gefa tilefni til ráðgjafar um kvóta, eða að það verði ráðlagðar veiðar. Það þarf umtalsvert meira. Þar gæti þurft 100 til 250 þúsund tonn, svona án ábyrgðar samt.“ 

Halda strax aftur í annan leiðangur

Þetta er engu að síður mun meira en sást í janúar, þegar aðeins mældust 64 þúsund tonn. Birkir segir að þá hafi ekkert bent til þess að meira af loðnu væri á leið inn á landgrunnið. En Árni Friðriksson fer nú strax til frekari loðnuleitar og viðræður standa við útgerðina um að senda skip þar með.

Hafa verið að undirbúa endurskoðun aflareglunnar

Við útgáfu loðnukvóta er stuðst við aflareglu frá 2015 sem segir að skilja beri eftir 150.000 tonn af loðnu til hrygningar með 95% öryggi. Talsvert hefur verið kallað eftir endurksoðun aflareglunnar meðal annars til að lækka þetta viðmið. Birkir segir eðlilegt að slík endurskoðun fari fram. „Og við höfum verið að undurbúa það að fara í svoleiðis vinnu. En það er ekkert sjálfgefið í hvora áttina það færi. Hvort að það myndi endilega verða til þess að það þurfi minni mælingar til að leyfa veiðar.“

Eldri aflaregla hefði engu breytt varðandi kvóta

Og þó lækkað viðmið í aflareglu hefði hugsanlega getað breytt einhverju varðandi tvær síðustu vertíðir, hefði það viðmið þurft að vera mjög lágt. „Og til að mynda ef við berum þetta saman við aflaregluna sem var fyrir, þá hefði hún heldur ekki gefið ástæðu til veiða. Hvorki af þeim mælingum sem hafa verið gerðar í ár eða því sem var í fyrra,“ segir Birkir.