Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir dóm yfir lögreglumanni mikil vonbrigði

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögmaður lögreglumanns sem dæmdur var í 45 daga fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness segir dóminn mikil vonbrigði. Með þessu sé verið að eyðileggja 10 ára feril lögreglumannsins.

Vísir greindi fyrst frá niðurstöðu dómsins en lögreglumaðurinn, sem er þrítugur, var sakfelldur fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.

Atvikið varð við handtöku á Irishman Pub í mars í fyrra. Var lögreglumanninum gefið að sök að hafa slegið hinn handtekna aftan í höfuðið þegar hann var færður inn í lögreglubíl, slegið hann tvö högg í andlitið og þrýst hné sínu á háls og höfuð.

Langt gengið að kalla þetta líkamsárás

Garðar Steinn Ólafsson, verjandi lögreglumannsins, segir í samtali við fréttastofu að dómur sé mikil vonbrigði. „Það er mjög langt gengið að kalla þetta líkamsárás því hann meiðir engan og hann telur myndband af atvikinu sýna það. Hann ýtir við honum og brotaþoli sjálfur segist ekki hafa verið sleginn í höfuðið við skýrslutöku hjá lögreglu. Þarna er því verið að túlka myndbandið umfram það sem fram kemur í skýrslunni“.

Segir dóminn eyðileggja 10 ára feril

Lögmaðurinn segir að vissulega megi deila um hvaða aðferðir lögreglumaðurinn hafi valið til að halda hinum handtekna rólegum í bílnum. Hann hafi hins vegar ekki meitt hann. „Það er mjög langt gengið að þarna sé skjólstæðingur minn að missa vinnuna vegna þess hvernig eitthvað lítur út á myndbandi. Þarna er verið að eyðileggja 10 feril manns sem hefur starfað við þetta frá því hann var í menntaskóla og er menntaður á þessu sviði,“ segir Guðjón sem telur að sekt hafi verið nægileg refsing, hafi á annað borð átt að sakfella.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað. Dómurinn hefur ekki verið birtur en í frétt Vísis kemur fram að brotaþola í málinu hafi ekki verið dæmdar bætur.

 

Magnús Geir Eyjólfsson