Segir dóm MDE engu breyta um stöðu Sigríðar

12.03.2019 - 10:33
Mynd:  / 
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í morgun, breyti engu um stöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Hann telur að starf Landsréttar sé ekki í uppnámi þar sem dómurinn hafi ekki bindandi niðurstöðu „nema að því leyti að íslenska ríkið þarf að borga málskostnað.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Íslenska ríkið þarf ekki að borga bætur heldur tvær milljónir í málskostnað.

Dómaraskipun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þessari niðurstöðu nú klukkan 9, eða 10 að staðartíma í Strassborg í Frakklandi. Íslenska ríkið þarf að borga málskostnað, um 15 þúsund evrur eða rúmlega tvær milljónir króna.

Birgir segir að niðurstaða meirihluta dómsins virðist í meginatriðum vera á sömu forsendum og dómur Hæstaréttar frá því í desember. „Ég segi fyrir mitt leyti að ég er jafn ósammála þeirri niðurstöðu og ég var niðurstöðu Hæstaréttar.“ Hann vekur jafnframt athygli á sameiginlegu séráliti tveggja dómara við mannréttindadómstólinn þar sem komist sé að þveröfugri niðurstöðu og aðferðafræði meirihluta dómsins gagnrýnd. 

Birgir telur að dómurinn kalli á áframhaldandi umræður um hvernig eigi að haga skipan dómara. Starf Landsréttar sé ekki í uppnámi. „Hann hefur ekki bindandi niðurstöðu nema að því leyti að íslenska ríkið þarf að borga málskostnað.“ Birgir segist jafnframt telja að dómur MDE breyti engu um stöðu Sigríðar. „Hún hefur gert grein fyrir sínum skoðunum og afstöðu í þessu og staðið af sér vantraust vegna þessa máls. “

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi