Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir brotið á rétti manna til sjálfsbjargar

Vellir í Svarfaðardal. Umrædd tjörn er efst til hægri.
 Mynd: Vellir
Bóndi í Svarfaðardal sem fær ekki að hafa bleikjueldi heima hjá sér án rekstrarleyfis ætlar að kæra sjávar- og landbúnaðarráðherra. Lög um fiskeldi séu brot á rétti manna til sjálfsbjargar. Matvælastofnun segist aðeins framfylgja lögum.

Matvælastofnun gaf Bjarna Óskarssyni á Völlum í Svarfaðardal þann kost að borga rekstrarleyfi vegna bleikjueldis á landi sínu eða slátra fisknum. Þetta hefur Bjarni harðlega gagnrýnt. Það sé galið að geta ekki átt bleikjur í eigin læk án þess að ríkið komi að því.

Lögin alveg skýr

Erna Karen Óskarsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, segir lögin um fiskeldi hins vegar alveg skýr; „Fiskeldi er í rauninni skilgreint sem geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska og annarra vatnadýra. Það eru engar sérreglur um fiskeldi í smáum stíl“.

Á völlum sé búið að kaupa kynbætta bleikju frá eldisstöð, sleppa í tjörnina og hún fóðruð, eldið sé því fiskeldi í skilningi laganna. Lítið fiskeldi, sama hversu smátt það er, fellur undir smáeldi sem er eldi undir 20 tonnum. Erna segir þau víða um land og kostar rekstrarleyfið 476 þúsund krónur og gildir til 16 ára. Það sé lægsta gjald fyrir slíka starfsemi.

Þá kveði lögin skýrt á um að Matvælastofnun eigi að stöðva starfsemi sé fiskeldi stundað án rekstrarleyfis. Það megi auðvitað alltaf endurskoða lög en það sé þá í höndum löggjafans að gera það, Matvælastofnun vinni aðeins eftir settum reglum. Bjarni fékk frest til 10. mars til að gera grein fyrir næstu skrefum. 

Bleikjan eingöngu til gamans

Á Völlum er rekin sælkeraverslun en Bjarni segir bleikjurnar aðeins vera til gamans og heimabrúks. Sú bleikja sem sé seld í versluninni sé aðkeypt. Hann segir rekstrarleyfið ekki eiga við í þeirra tilfelli og að breyta þurfi lögunum.

„Málið er bara það að það vantar í þessi lög eða reglugerðir eitthvað um það að bændur og landeigendur megi eiga nokkrar bleikjur í læk eða tjörn án þess að borga ríkinu eitthvað“ Það þurfi að setja viðbót við lögin eða lagabreytingu sem geri það kleift.

Það verði engin framþróun geti fólk ekki byrjað smátt og prufað sig áfram. Hann ætli því að spyrna við fótum og kæra sjávar- og landbúnaðarráðherra. „Mér finnst þetta svo ósanngjarnt gagnvart bændum og fólki sem á land, að það megi ekki nýta sér sitt eigið land. Þetta er brot á rétti manna til sjálfsbjargar“ segir Bjarni. 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV