Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir borgina skulda skólanum 40 milljónir

05.06.2015 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Tónlistarskólinn í Reykjavík hefur stefnt Reykjavíkurborg. Forsvarsmenn tónskólans segja að athafnir borgarinnar hafi bakað skólanum meiriháttar vandræði og telja að borgin skuldi skólanum vel yfir 40 milljónir.

Forsaga málsins er sú að árið 2011 var ákveðið að íslenska ríkið legði aukna fjármuni til tónlistarkennslu í landinu. Samkvæmt lögum er það í verkahring sveitarfélaga að reka tónlistarskóla og bjóða upp á framhaldsnám í tónlist. Framlag ríkisins átti að koma til viðbótar og glæða tónlistarkennslu. Í kjölfar þessa samkomulags ákvað hins vegar Reykjavíkurborg að draga úr framlögum sínum til tónskóla í borginni.

„Þeir litu í stuttu máli svo á að þar með væri þetta komið á forsvar ríkisins og drógu sín framlög til baka. Það stóð aldrei til," segir Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann fullyrðir að strax í upphafi hafi verið ljóst að upphæðin sem kom frá ríkinu nægði ekki til að reka tónskólana. „Afleiðingin er sú að það hafa hlaðist upp skuldir hjá þessum tónlistarskólum, þvi þeir hafa ekki fengið nægilegt framlag með þessum nemendum."

Telja skólann eiga inni yfir 40 milljónir
„Það sem átti að vera til hagsbóta fyrir tónlistarkennsluna, hefur orðið til þess að þeir skólar í Reykjavík sem kenna flestum nemendum á framhaldsstigi, þeir eru komnir í meiriháttar vandræði út af þessu," segir Kjartan.

Niðurstaðan varð því sú að Samtök tónlistarskóla í Reykjavík (STÍR) komu sér saman um að stefna Reykjavíkurborg. Tónlistarskólinn í Reykjavík reið á vaðið og stefndi borginni í mars síðastliðnum og krafðist þess að Reykjavíkurborg greiddi skólanum vel yfir 40 milljónir. Kjartan segir að aðrir tónskólar í borginni muni fylgja í kjölfarið.

Dæmt í haust
Guðni Á Haraldsson, lögmaður tónskólans, segir að málið sé sáraeinfalt. Tónskólinn sé einfaldlega að fara fram á að borgin fari eftir lögum. „Það eru til lög um fjárhagslegan stuðning sveitarfélaga við tónlistarskóla. Lögin kveða á um það að sveitarfélög greiði kennslukostnað við þessa skóla," segir Guðni. Hann segir að borgin hafi brugðist þessum skyldum sínum þegar hún dró úr framlögum sínum til tónskólanna árið 2011.

Leita að lausn
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra hefur skipað starfshóp til að leita lausnar á þessum flækjum. Ein lausnin sem er uppi á teikniborðinu er sú að ríkið dragi úr framlögum sínum til tónskólanna, en leggi í staðinn fjármuni í einn tónlistarframhaldsskóla, sem yrði staðsettur í höfuðborginni. Þær hugmyndir hafa farið illa í skólastjóra í tónlistarskólum víðsvegar um landið, enda telja þeir að þær stofni starfseminni í flestum tónskólum í voða. Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, tekur hins vegar vel í hugmyndirnar.