Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir borgina hafa staðið illa að framkvæmdum

03.11.2019 - 13:41
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Framkvæmdir borgarinnar í miðborg Reykjavíkur hafa verið illa skipulagðar, segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. Þær hafi bitnað illa og harkalega á fyrirtækjum í miðborginni.

„Mér finnst borgin hafa staðið illa að þessum framkvæmdum, sinnt samráði við atvinnurekendur mjög illa og sýna stundum, finnst mér reyndar, atvinnurekstri mjög takmarkaðan skilning. Þarna finnst mér ríkja ákveðið skilningsleysi.“

Hún fór ásamt Árna Helgasyni lögfræðingi, Baldri Þórhallssyni, prófessor í stjórnmálafræði og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur borgarfulltrúa yfir borgarmálin og fleira í Silfrinu.

Rekstraraðilar mættu sperra eyrun

Hins vegar trúi hún á markaðslögmálin. Kannanir sýni að meirihluti borgarbúa sé fylgjandi göngugötum í miðborginni en meirihluti rekstraraðila á móti. „Rekstraraðili, sem ætlar ekki að hlusta á íbúana og vilja neytandans, það fer auðvitað bara fyrir honum með einum hætti. Þannig ég held að rekstraraðilar mættu sperra aðeins eyrun og hlusta betur á það sem fólkið vill,“ segir Hildur. 

Baldur sagði að honum þætti hluti atvinnurekenda í miðborginni í raun berjast gegn miðborginni og sínum eigin hagsmunum. Rannsóknir sýni að göngugötur auki verslun og bæti rekstur. Þetta sé sérkennileg nálgun. 

Endurskoða hvernig staðið sé að framkvæmdum

Sigurborg Ósk, formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, segir að umræðan endurspegli ekki endilega raunveruleikann. Háværustu raddirnar séu oft minnsti hópurinn líkt og kannanir sýni. Göngugötur bæti mannlífið, rekstrarumhverfið og aðgengi fólks. 

Hún segir að verið sé að endurskoða hvernig staðið sé að kynningu og hvernig bæta megi upplýsingaflæði til atvinnurekenda og allra í miðborginni. Meirihlutinn ætli sér að taka betur á þessum málum. 

Fegra þurfi framkvæmdasvæðin

Tafir á framkvæmdum á Hverfisgötu tengist meðal annars veitum og lögnum. Verið sé að skipta út um hundrað ára gömlum lögnum og gera nýtt kerfi. Til að mynda hafi þurft að bíða eftir nýjum lögnum. 

Hún segir að innra skipulag framkvæmdanna sé ekki nógu gott og ekki heldur hvernig framkvæmdasvæðin sjálf sé skipulögð. Framkvæmdasvæði megi ekki virka fráhrindandi. Því þurfi að fegra þau, líkt og sé gert í nágrannalöndum. „Ábyrgðin er okkar og þarna getum við svo sannarlega bætt úr.“

Árni sagði að framkvæmdir, sem tekið hafa langan tíma, og áform um miðborgina væru klúðurslegar að því leytinu til að verið væri „að tromma upp þessa góðu stemningu; Það er gaman að vera í miðborginni og gaman að labba um en svo er Hverfisgatan búin að vera lokuð nánast allt árið.“