Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir borgarstjórnarkosningar snúast um traust

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nýr oddviti Pírata í Reykjavík segir að borgarstjórnarkosningarnar snúist um traust. Píratar ætla að efla traust almennings á stjórnmálamönnum. Prófkjöri Pírata í þremur stærstu sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu lauk í dag.

Dóra Björt Guðjónsdóttir alþjóðafræðingur varð efst í Reykjavík. „Við Píratar eru upptekin af valdeflingu borgarbúa, meira gagnsæi í þágu almennings og við erum upptekin af meira samráði við borgarbúa í þeim málum sem þá varða af því að þeir eiga rétt á því að koma að ákvarðanatöku um mál sem þá varða. Þessar kosningar snúast um traust og við Píratar eru upptekin af því að efla traust almennings á stjórnmálafólki. Við höfum sýnt það og sannað að okkur er treystandi. Við gerum það sem við segjumst ætla að gera,“ segir Dóra Björt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir leiðir listann í Hafnarfirði. „Helstu áherslurnar eru að taka það áfram sem Píratar hafa gert hingað til. Það er að vera með ábyrgari stjórnsýslu. Við viljum gera aðgengi fyrir íbúa á allan hátt meira, aðgengi að upplýsingum, aðgengi að gögnum, aðgengi að lýðræðinu. Það skiptir mjög miklu máli í svona nærsamfélaginu sem sveitarfélag er að íbúarnir séu með,“ segir Elín Ýr.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir varð efst í Kópavogi. „Það eru auðvitað þessi hefðbundnu Píratamál, gagnsæi í stjórnsýslunni og aukin þátttaka íbúa í ákvarðanatöku. Við viljum halda áfram að vera rödd skynseminnar eins og Píratar hafa verið í þinginu,“ segir Sigurbjörg Erla.