Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Bannon hafa bæði misst starfið og vitið

03.01.2018 - 22:12
President Donald Trump speaks during a cabinet meeting at the White House, Wednesday, Dec. 20, 2017, in Washington. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP Images
Fundi sem sonur Bandaríkjaforseta átti með hópi Rússa í Trump-turninum þegar kosningabaráttan í Banaríkjunum stóð sem hæst, má líkja við landráð. Þetta segir Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps í nýrri bók bandaríska blaðamannsins Michael Wolff sem kemur út í næstu viku.

Breska blaðið The Guardian hefur bókina undir höndum og hafa frásagnir úr henni nú birst á vefmiðlum víða um heim.

Bandaríkjaforseti brást skjótt við frásögn Bannons úr hinni óútkomnu bók og sagði að Bannon hafi ekki bara misst starfið þegar hann hætti sem ráðgjafi sinn. Hann hafi augsýnilega einnig misst vitið.

Trump sagði sömuleiðis að Bannon væri forsetatíð hans algjörlega óviðkomandi. Hann hafi lítið sem ekkert haft um sögulegan sigur sinn í forsetakosingunum að gera. Steve Bannon sé einn á báti og ólíkur öðrum stuðningsmönnum Trumps, sem vilja landi og þjóð allt það besta.

Sara Sanders, talskona Hvíta hússins, sagði ásakanir Bannons sömuleiðis fáránlegar, á blaðamannafundi nú í kvöld. Trump væri bæði reiður og verulega misboðið vegna frásagna úr bókinni.

 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV