Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir áströlsku hjónin bera sína ábyrgð

07.01.2017 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einn eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland gagnrýnir viðbrögð ástralskra hjóna sem týndust í vélsleðaferð fyrirtækisins á Langjökli á fimmtudaginn, og telur að þau beri sjálf stóran hluta ábyrgðarinnar á því hversu langan tíma tók að finna þau. Hann kveðst þó harma atvikið.

Hjónin David og Gail Wilson frá Ástralíu fóru í vélsleðaferð með fyrirtækinu Mountaineers of Iceland á Langjökul á fimmtudaginn. Lagt var af stað frá Skálpanesi þrátt fyrir að búið væri að gefa út stormviðvörun. Vélsleði hjónanna stöðvaðist hins vegar og þau urðu viðskila við hópinn. 180 björgunarsveitarmenn leituðu þeirra þangað til þau fundust um sjö tímum síðar, köld en heil á húfi. Í viðtali í fréttum RÚV í gær gagnrýndu hjónin Mountaineers of Iceland og sögðu meðal annars að vegna veðurs hefði aldrei átt að leggja upp í ferðina. Þá hafi þeim ekki verið kennt að setja sleðann í gang. Auk þess hafi þeim verið sagt að ef einhver heltist úr lestinni ætti viðkomandi að halda kyrru fyrir - leiðsögumaður kæmi aftur innan tíu mínútna. Þau hafi haldið kyrru fyrir í tvo og hálfan tíma, en enginn komið.

Harmar atvikið

Fréttastofa náði í morgun tali af Herberti Haukssyni, vettvangsstjóra og einum eigenda Mountaineers of Iceland. Hann baðst undan viðtali að svo stöddu, en sagði að fyrirtækið harmi þetta atvik.

Í viðtali í Fréttablaðinu í morgun segir Herbert hins vegar að Wilson-hjónin fari ekki að öllu leyti rétt með staðreyndir málsins. Í viðtalinu varpar Herbert ábyrgðinni á málinu að stórum hluta yfir á hjónin. Þau hafi, þvert á þær reglur sem þeim hafi verið kynntar, ákveðið að keyra af stað eftir að þau týndust. Það hafi orðið til þess að hjónin hafi ekki fundist fyrr en raun bar vitni, þar sem þau hafi verið komin langt út fyrir leiðina. Þetta er hins vegar þvert á það sem fram kom í fréttatilkynningu sem Mountaineers of Iceland sendu frá sér aðfaranótt föstudags. Þar sagði meðal annars:

„Ferðamennirnir sýndu hárrétt viðbrögð með því að fara eftir leiðbeiningum sem gefnar höfðu verið í upphafi ferðar og bíða við vélsleðann um leið og þeir áttuðu sig á að þeir höfðu orðið viðskila við hópinn.“

Þá segir Herbert í viðtalinu við Fréttablaðið að það hafi ekki verið rétt af hjónunum að drepa á sleðanum til að spara rafmagn, því leitarmenn hafi þá ekki getað séð ljós á sleðanum. David sagði hins vegar í viðtalinu í gær að hann hafi sett sleðann í gang um leið og hann varð var við björgunarsveitarmenn, til þess að þeir sæju ljósið frá sleðanum.

Herbert segist í viðtalinu í Fréttablaðinu skilja reiði Wilson-hjónanna, enda sé það ekkert grín að þurfa að bíða í langan tíma í kuldanum. Herbert sé hins vegar sjálfur reiður því hjónin hafi ekki farið að fyrirmælum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.