Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir afstöðu sína ekki eiga að koma á óvart

Mynd: RÚV / RÚV
„Það hefur legið fyrir í langan tíma, frá því málið var afgreitt út úr ríkisstjórn, að ég væri með fyrirvara hvað varðar þessi tvö mál,“ segir Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra um ástæður þess að hún sat hjá við atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. „Ég ítrekaði þann fyrirvara síðan í blaðagrein í sumar og það væri einkennilegt ef það kemur fólki á óvart að ég standi við það sem ég segi.“

 

Eygló segir ekkert nýtt að hún og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi tekist á um velferðarmál. Hún segir hægt að gera meira í málefnum lífeyrisþega og barnafjölskylda. „Ríkisfjármálaáætlun sýnir að það er svo sannarlega svigrúm til að bæta kjör þessara stóru og mikilvægu hópa.“

Aðspurð hvort hún geti setið áfram í ríkisstjórn eftir að hafa lýst þessari skoðun um stóra málaflokka segir Eygló að fyrirvara sínar hafi legið fyrir lengi. Hún hafi unnið af trúmennsku í ríkisstjórn. Eygló segir að það hafi að mörgu leyti gengið ágætlega að koma sínum málum í gegn en stundum hafi það verið erfitt, svo sem í húsnæðismálum og almannatryggingamálum. „Við sjáum að með því að lækka skuldir heimilanna og hækka laun fólks í landinu erum við búin að búa til svigrúmið,“ segir Eygló. Hún hafi alltaf talið að svigrúmið ætti að nota til að bæta stöðu aldraðra, öryrkja, ungs fólks og barnafjölskyldna.

Eygló segir stjórnarsamstarfið hafa skilað góðu árangri en nú fái almenningur tækifæri til að velja stjórnarstefnu fyrir næsta kjörtímabil. 

Viðtalið í heild sinni er hér fyrir ofan.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV