Segir aðstæður í Eyjafirði góðar til fiskeldis

19.01.2019 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: samsett mynd - RÚV
Prófessor í fiskeldi segir mörg tækifæri til að ala fisk í Eyjafirði, til dæmis með heitu vatni úr Vaðlaheiðargöngum. Ráðstefna um fiskeldi verður haldin á Akureyri í dag.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar stendur fyrir ráðstefnunni sem hefst klukkan 11 í Hofi. Markmiðið er að fræða almenning um fiskeldi í Eyjafirði og koma á samtali við vísindamenn um helstu möguleika og viðfangsefni. 

Hægt að nýta vatn úr Vaðlaheiði í landeldi

Helgi Thorarensen, prófessor í fiskeldi við Háskólann á Hólum, flytur erindi um valkosti í fiskeldi. Hann segir að í Eyjafirði sé vel hægt að stunda hefðbundið kvíaeldi með sjálfbærum hætti. En það séu fleiri möguleikar, til dæmis í landeldi. „Þetta er lághitasvæði þannig að það er ekki mikill jarðhiti. En þarna er vatn sem er að koma til dæmis úr Vaðlaheiðargöngunum og eins er líka kælivatn hjá Becromal, sjór sem er ekki nýttur, og mætti alveg nota í fiskeldi,“ segir Helgi. 

20 þúsund tonna eldi í umhverfismati

Fyrirtækið Akvafuture undirbýr laxeldi í lokuðum kvíum. Skipulagsstofnun hefur samþykkt matsáætlun fyrir allt að 20 þúsund tonna eldi á ári. „Það er mjög áhugavert. Það er mikilvægt að þetta er alveg ný tækni sem er verið að prófa mikið í Noregi núna og áhugavert að prófa hérna. Menn þurfa að sjá hversu vel þetta gengur og hversu vel þessi búnaður þolir öldur og svo framvegis,“ segir Helgi. 

Almennt góðar aðstæður

Hann segir að klári þurfi burðarþols- og áhættumat svo hægt sé að fullyrða hversu mikinn fisk er hægt að ala, en að því er unnið. Almennt talað séu þó miklir möguleikar fyrir hendi í Eyjafirði. „Góðar samgöngur, það er reynsla og það er fiskvinnsla þarna, mikil reynsla af fiskvinnslu. Það er mikil þekking þarna til staðar líka þannig að ég held að aðstæður séu raunverulega mjög góðar,“ segir Helgi. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi