Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir að já við orkupakka þýði já við sæstreng

19.08.2019 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Já við orkupakka þrjú þýðir já við sæstreng, sagði Frosti Sigurjónsson, einn af forsvarsmönnum Orkunnar okkar, á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis í morgun. Fundurinn með samtökunum stóð í nærri eina og hálfa klukkustund. Þrátt fyrir að hafa lengst af verið á vinsamlegum nótum kastaðist stundum í kekki, sérstaklega þegar gamlir félagar í pólitíkinni tókust á.

Frosti hóf fundinn á stuttu ávarpi þar sem hann kynnti viðbótarumsögn Orkunnar okkar við þriðja orkupakkann. Hann sagði að landsmenn hefðu ekki verið spurðir hvort þeir vildu markaðsvæða raforkukerfið og kallaði þriðja orkupakkann eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar. 

Frosti sagði að ekki hefði verið sýnt fram á að EES-samningurinn kæmist í uppnám ef Ísland kysi að innleiða ekki þriðja orkupakkann.  „Já við þriðja orkupakkanum þýðir í raun já við sæstreng,“ sagði Frosti, ekki væri hægt að segja já við orkupakkanum en nei við sæstreng.

Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra tók einnig til máls og sagðist vilja leggja áherslu á félagslegar forsendur málsins, hvert förinni væri heitið. Hann sagði að hið erlenda valdboð gengi út á að markaðsvæða orkugeirann en hann teldi að tryggja ætti hag almennings í gegnum eignarhaldið. „Ég heiti á alla félagslega þenkjandi alþingismenn að taka höndum saman við öll þau sem vilja núna sporna gegn þessari óheillaþróun.“

Umræðan snerist mikið um sæstreng og hvort innleiðing þriðja orkupakkans þýddi að Ísland væri skuldbundið til að leyfa lagningu sæstrengs hingað. Þetta var til að mynda ein af fyrstu spurningum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur formanns utanríkismálanefndar.  „Þriðji orkupakkinn skuldbindur Ísland til að þvælast ekki fyrir ef einhver vill leggja sæstreng,“ sagði Frosti.  Þessi áskilnaður, um að Alþingi geti hafnað sæstreng með atkvæðagreiðslu, þýddi að Íslandi gengi þvert á alþjóðlegar skuldbindingar.

Áslaug Arna spurði úti í Icelink-sæstrenginn sem Orkan okkar hefur sagt að ESB hafi valið sem áhugavert verkefni. Hún benti á að verkefni af þessu tagi væru ekki sett á svona lista nema með samþykki ríkisstjórnar. Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar tók undir þessa gagnrýni Áslaugar Örnu og sagði að réttara væri að Landsnet og Landsvirkjun, með samþykki ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs,  hefðu sótt um að fá að vera á þessum lista og fengið samþykki hjá ESB.    

Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins óskaði eftir skýringum frá Frosta á því hvað hefði breyst frá því að hann hefði sjálfur fjallað um orkupakkann þegar hann var þingmaður og sat í utanríkismálanefnd.  Þá gagnrýndi hún að Frosti skyldi hafa kallað spurningu þingmanns gervispurningu.

Frosti brást nokkuð reiður við gagnrýni og sagði að það borgaði sig ekki að setja sig á háan hest. Þar vísaði hann til skrifa Silju á Facebook um skýrslu Orkunnar okkar. Hann sagðist hafa verið eini þingmaðurinn í nefndinni sem hefði óskað eftir undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans en hann hefði mátt síns lítils. Hann taldi að Ísland gæti fengið undanþágu frá innleiðingunni án nokkurra afleiðinga og það myndi ekki setja samninginn um evrópska efnahagssvæðið í uppnám.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV