Segir að fyrirtæki innan SA vilji semja

19.05.2015 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er umhugsunarvert ef Samtök atvinnulífsins gefa það út, fyrir hönd sinna fyrirtækja, að þau geti ekki greitt mannsæmandi laun. Þetta segir Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

„Það er ekki rétt. Fyrirtæki innan SA hafa verið að bera víurnar í verkalýðsfélög að semja, vilja ganga að þessum kröfum, það er það sem við heyrum frá fyrirtækjum innan SA, einstaka fyrirtækjum,“ segir Drífa. 

Starfsgreinasambandið gagnrýndi í dag þá fullyrðingu Samtaka atvinnulífsins, að launakröfur geti kostað sextán þúsund manns vinnuna. Sú fullyrðing byggir á könnun meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins, sem gefur til kynna að meira en helmingur þeirra þurfi að segja upp fólki nái launakröfur Starfsgreinasambandsins fram að ganga. Drífa segir skilaboðin alvarleg og það sé ábyrgðarhluti af hálfu Samtaka atvinnulífsins að setja þau út. Nær væri að einbeita sér að því að finna lausnir heldur en að mála eins svarta mynd og mögulegt er.

Næsti samningafundur SA og Starfsgreinasambandsins er á fimmtudag. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi