Segir að enn beri töluvert í milli

31.01.2020 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Samningafundur Eflingar og Reykjavíkurborgar hófst klukkan tíu í morgun og er gert ráð fyrir að viðræður standi fram eftir degi í minni hópum. Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, segir að töluvert beri í milli og að boðað hafi verið til næsta fundar á mánudagsmorgun. „Við reynum okkar ítrasta til að ná samningi,“ segir Harpa.

Að óbreyttu verður fyrsti dagur verkfalls félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg fjórða febrúar frá klukkan hálf eitt á hádegi fram til miðnættis. Verkföllin taka til starfsmanna Reykjavikurborgar á leikskólum, hjúkrunarheimilum og ýmsum störfum á umhverfis- og skipulagssviði. 

Á vef ríkissáttasemjara kemur fram að tveimur nýjum sáttamálum hafi verið vísað til hans. Þetta eru mál Sameykis og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia og mál Sameykis og Strætó bs. Báðir kjarasamningar runnu út 31. mars í fyrra. 

Ekki náðist í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi