Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Seðlabankinn veitir enn engin svör

27.02.2013 - 20:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður fjárlaganefndar Alþingis segir að Seðlabankinn hafi enn ekki svarað því hvort og þá hvenær nefndin fái afrit af símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þar sem þeir ræða áttatíu milljarða króna lán Seðlabankans til Kaupþings.

Seðlabankinn lýsti því yfir í síðustu viku að hann væri tilbúinn að leyfa nefndarmönnum að lesa útskrift af símtalinu. Þeir fengju þó ekki að halda eintökum af því og ekki vitna beint til þess í opinberum skýrslum. Skilningur nefndarinnar virðist hafa verið að þetta þýddi að hún fengi að sjá útskriftina. Upplýsingafulltrúi Seðlabankans hefur á hinn bóginn ítrekað sagt að heimildir til að birta nefndinni upptökuna liggi ekki fyrir. Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, segist hafa gengið á eftir svari frá bankanum um birtinguna en samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum í dag hefur ekkert nýtt gerst í málinu. Þeir sem fréttastofa hefur rætt við telja líklegt að vegna persónuverndarsjónarmiða þurfi að biðja Geir H. Haarde um leyfi til að nefndin fái að lesa útskrift af símtalinu.