Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Seðlabankinn óttast launahækkanir

25.02.2013 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikilvægt er, að launahækkanir líkar þeim sem hjúkrunarfræðingar sömdu um nýverið, stoppi þar og smitist ekki út á allan vinnumarkaðinn, segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Gerist það er óhjákvæmilegt að peningastefnunefnd bregðist við.

Þingmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd lá ýmislegt á hjarta á fundi með seðlabankastjóra og aðalhagfræðingi bankans í dag. Gjaldeyrishöft, efnahagsbatinn og nýlegar launahækkanir hjúkrunarfræðinga við Landspítalann bar meðal annars á góma. 

Már varaði við því að sambærilegar hækkanir yrðu viðmiðið í þeirri samningagerð sem væri framundan fyrir allan vinnumarkaðinn. Slíkt gæti haft mikil áhrif á verðbólguna. „Það eru auðvitað dæmi um það úr fortíðinni að einstakir hópar hafa fengið meiri launahækkanir heldur en aðrir,“ segir Már. Mjög mikilvægt sé að hækkunin sé hlutfallsleg launabreyting þeirra sem hana fái. Slíkt geti samrýmst verðbólgumarkmiðum, en fari launahækkunin að smitast út á vinnumarkaðinn sé óhjákvæmilegt að einhver viðbrögð verði að hálfu peningastefnunnar.