„Seðlabankinn mun faglegri núna en fyrir hrun“

03.10.2019 - 22:17
Mynd: RÚV / RÚV
Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, segir Ísland hafa breytt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum meira en sjóðurinn Íslandi. Þá sé Seðlabankinn mun faglegri núna en á árunum fyrir hrun.

Norski hagfræðingurinn Øygard, sem var seðlabankastjóri á Íslandi árið 2009, ræddi um veru sína í Seðlabankanum, íslenska efnahagshrunið og endurreisnina á fundi Norræna félagsins í Reykjavík í kvöld. Í vikunni gaf hann út bókina: Í víglínu íslenskra fjármála. Þar gagnrýnir hann meðal annars íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki skipulagt aðgerðir þegar ljóst var í hvað stefndi.

„Ég held að það sé augljóst að það skorti áætlun og undirbúning sem er sérstakt í ljósi þess að strax síðla árs 2005 voru fyrstu víbendingarnar um það sem koma skyldi. Í nóvember árið 2005 fékk Seðlabankinn fyrstu ábendinguna um að kreppa væri að koma  og í kjölfarið var æ fleira sem benti til þess. Það er því merkilegt að ekki hafi verið gerðar áætlanir um hvernig ætti komast út úr kreppunni,“ segir Øygard.

Øygard segir í bókinni að þrátt fyrir að skortur á strúktur og skipulagi hafi einkennt stjórnvöld og aðgerðir hafi Íslendingar barist fyrir sínu þegar kom að viðræðum við alþjóðagjaldeyrissjóðinn og um fjármagnshöftin.         

„Fjármagnshöftum var komið á á Íslandi með mjög farsælum niðurstöðum. Fyrir einungis þremur til fjórum vikum var nánast sama leið farin í Argentínu. Þannig að Ísland breytti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum meira en sjóðurinn Íslandi,“ segir hann.

Þá segir hann að Íslendingar hafi lært margt af hruninu. Efnahagsumhverfið sé öðruvísi nú en áður en kreppan skall á.

„Ég kem inn á það í bókinni að fyrir kreppuna taldi fólk að allt sem gat farið vel myndi fara vel og það voru engar áætlanir. Eftir kreppuna trúði fólk því að allt sem gæti farið úrskeiðis myndi fara úrskeiðis. Smátt og smátt varð svo til áætlun fyrir allt. Ég tel að íslenskar stofnanir séu betri nú en áður, Seðlabankinn er mun faglegri og efnahagsstjórn er mun betri en áður,“ segir Øygard.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi