Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Seðlabankinn braut lög við ráðningu upplýsingafulltrúa

13.01.2020 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttablaðið
Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hafi brotið jafnréttislög þegar Stefán Rafn Sigurbjörnsson var ráðinn upplýsingafulltrúi bankans. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og blaðamaður á Læknablaðinu, kærði ráðninguna. Þetta er í þriðja sinn sem Seðlabankinn brýtur jafnréttislög frá árinu 2012.

Stefán Rafn var ráðinn í júní síðastliðnum en 51 sótti um starfið.  Kærunefndin segir í úrskurði sínum að nægar líkur hefðu verið leiddar að því að Gunnhildi hefði verið mismunað á grundvelli kyns þegar ráðið var í stöðuna.  Þá segir nefndin að Seðlabankanum hafi ekki sýnt fram á að Stefán Rafn hafi staðið Gunnhildi framar við ráðningu í umrætt starf. 

Úrskurðurinn er síðan 19. desember en var ekki birtur fyrr en nú.

Seðlabankinn sagði að farið hefði fram mjög vandað ferli á umsóknum og taldi kæruna því tilefnislausa. Honum hafi verið frjálst að velja þann umsækjanda sem metinn hafi verið hæfastur á grundvelli þeirra viðmiða sem hafi komið fram í auglýsingu. 

Gunnhildur sagði að huglægt mat Seðlabankans hafi verið ósanngjarnt í hennar garð og að karlmaður, sem hafi bæði búið að síðri menntun og margfalt minni reynslu, hafi fengið tækifærið.  Af gögnum málsins verði ekki séð á hvaða forsendum hún hafi ekki verið metin á meðal þeirra hæfustu. 

Kærunefndin segir að fyrir liggi að Gunnhildur hafi staðið Stefáni Rafni framar varðandi fyrstu tvær hæfnikröfurnar, menntun og reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlum.  

Þá hafi Seðlabankanum ekki tekist að sýna fram á að Stefán Rafn stæði Gunnhildi framar varðandi þekkingu á efnahags-og peningamálum og fjármálamörkuðum. Nefndin orðar það reyndar svo að það hefði verið nærtækast að álykta sem svo að Gunnhildur hafi staðið Stefáni Rafni framar varðandi þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum í ljósi MBA-menntunar hennar.

Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2012 sem Seðlabankinn brýtur jafnréttislög. Árið 2012 var bankinn talinn hafa brotið lög þegar karl var ráðinn í stöðu sérfræðings í lánamálum ríkisins hjá bankanum.  Þremur árum seinna braut bankinn aftur lög þegar í ljós kom að kona hafði verið lægri laun en karl. Þau höfðu sömu menntun og svipaða reynslu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV