Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sautján vilja í sveitarstjórn Dalabyggðar

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Breytingar verða á stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðar eftir kosningar. Oddviti og sveitarstjóri eru báðir að hætta. Dalabyggð er stærsta sveitarfélagið sem viðhefur persónukjör og hafa 17 manns lýst áhuga á að starfa í sveitarstjórn. Fráfarandi oddviti segir að bygging íþróttahúss og sundlaugar í Búðardal sé meðal stærstu verkefna næstu sveitarstjórnar, en húsnæðismál og samgöngur brenni á íbúum.

Í Dalabyggð bjuggu 667 manns við upphaf þessa árs og er sveitarfélagið í 42. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. 

Þrír í sveitarstjórn og sveitarstjóri að hætta

Enginn framboðslisti barst og því verða óhlutbundnar kosningar, líkt og fyrir fjórum árum. Allir kjósendur eru í kjöri, nema þeir sem eru löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri eða hafa fyrir fram skorast undan því. Alls hafa 17 manns formlega lýst áhuga á að starfa í sveitarstjórn Dalabyggðar. Sjö fulltrúar eiga sæti í sveitarstjórn, en þrír þeirra hafa skorast undan endurkjöri. Sveinn Pálsson, sem hefur gegnt starfi sveitarstjóra frá 2010, er einnig að hætta. Því er ljóst að nokkrar breytingar verða á stjórn sveitarfélagsins. 

Jóhannes Haukur Hauksson, sem hefur verið oddviti sveitarstjórnar í fimm ár, er meðal þeirra sem hafa skorast undan endurkjöri. „Ég er búinn að vera í þessu lengi og þetta er mikil vinna. Ég hef þá trú að það eigi ekki neinn einn að stjórna of lengi,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Vilja fjölga ferðamönnum á svæðinu

Jóhannes segir að kjörtímabilið hafi verið gott í Dalabyggð og rekstur sveitarfélagsins gangi vel. „Við höfum skilað hagnaði síðan 2010. Skuldahlutfallið er með því lægsta sem þekkist og komið niður fyrir 60%,“ segir hann. Á sama tíma hefur verið ráðist í stór verkefni. „Við höfum verið að ljósleiðaravæða nánast allt sveitarfélagið á þessu ári sem klárast vonandi á næsta ári,“ segir Jóhannes. Þá stendur til að breyta Leifsbúð í Búðardal í Vínlandssetur, í samstarfi við Landnámssetrið í Borgarnesi, sem er liður í að efla ferðaþjónustu á svæðinu. Fjármögnun er langt komin og vonir standa til að hægt verði að opna setrið á næsta ári. 

Umdeild sala á Laugum

Á næsta kjörtímabili er markmiðið að byggja íþróttahús og sundlaug í Búðardal. Jóhannes segir að meginþorri samfélagsins, og flestir þeirra sem vilja starfa í sveitarstjórn, séu sammála um að það sé brýnt verkefni. Hingað til hefur skólabörnum verið ekið að Laugum til þess að fara í sund og íþróttir. 

Laugar í Dölum, Sæljngsdalur
 Mynd: lonelyplanet.com - Lonely Planet
Laugar í Dölum

Jafnframt er stefnt að því að selja húseignir sveitarfélagsins að Laugum, en öllu umdeildara er hvernig standa skuli að því. Eitt tilboð barst í eignirnar, sem ekki allir eru sáttir við. Varamaður í sveitarstjórn hefur hvatt til þess að sveitarstjórn fresti sölunni fram yfir kosningar og telur Jóhannes að það verði gert. Eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils verði að ganga frá sölunni og byggja í staðinn upp íþróttaaðstöðu í Búðardal. 

Enginn meirihluti eða minnihluti

Eins og áður sagði verður persónukjör í Dalabyggð og er sveitarfélagið það fjölmennasta á landinu sem hefur þann hátt á. Þetta er í þriðja sinn sem engir listar eru boðnir fram. Jóhannes segir að þetta hafi gengið afar vel og samstarf í sveitarstjórninni gott. „Það hefur ekki myndast meirihluti og minnihluti í sveitarstjórninni. Menn hafa náð að ræða sig niður á málin. Það eru kostir og gallar á hvoru tveggja, en ég tel að kostirnir séu fleiri en gallarnir“ segir hann.

Samgöngur og húsnæðismál í forgangi

Spurður um stærstu áskorun sveitarfélagsins nefnir Jóhannes húsnæðismál og samgöngumál. Líkt og víða annars staðar vantar húsnæði og hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins lengi beðið eftir aðstoð ríkisins til þess að byggja íbúðir. Nú sé loksins möguleiki á að fá framlög frá Íbúðalánasjóði, sem minnki áhættu sveitarfélagsins, og því vonast hann til að hægt verði að byggja innan tíðar

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Þá segir Jóhannes að sveitarstjórn verði að þrýsta áfram á ríkið um að bæta samgöngur. Skógarstrandarvegur, frá Snæfellsnesi og inn í Dali, skipti þar mestu máli. Þetta sé ekki síst mikilvægt til þess að efla ferðaþjónustu, sem hafi þó verið að aukast. „Túrisminn er að aukast mjög mikið hjá okkur. Svæðið er orðið volgt, en það er ekki orðið heitt, af því að það vantar tengingar,“ segir Jóhannes. 

Hér er hægt að lesa um þá sem hafa hug á að starfa í sveitarstjórn Dalabyggðar á næsta kjörtímabili.