Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sautján ára bandarískur drengur lést

16.10.2019 - 10:04
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Sautján ára gamall bandarískur drengur lést í bílslysinu sem varð á Snæfellsnesi á laugardaginn. Drengurinn var á ferðalagi ásamt foreldrum sínum og tveimur systrum þegar bifreið þeirra fór út af veginum, fór nokkrar veltur og endaði á hliðinni. Slysið varð í grennd við bæinn Gröf við Kleifá á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Í frétt á bandaríska vefmiðlinum Patch kemur fram að fjölskyldan sé frá bænum New Hyde Park í New York ríki. Haft er eftir aðstandendum fjölskyldunnar að hinn sautján ára gamli Zachary Zabatta hafi látist í slysinu, og að systir hans, Sophia, hafi slasast alvarlega. Fjölskyldan sé enn á sjúkrahúsi og óljóst sé hvenær hún geti farið heim.

Hafin er söfnun fyrir fjölskylduna, og hafa þegar safnast um 52.000 dollarar, að því er fram kemur í fréttinni.

Slysið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi auk þess sem rannsóknarnefnd umferðaslysa og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu á vettvang.