Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Sáttir við skýringar Sigrúnar

04.05.2010 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Baldur Dýrfjörð, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, segir að Sigrún Björk Jakobsdóttir oddviti flokksins, hafi gert fullnægjandi grein fyrir kaupmála, þar sem fasteignir eiginmanns hennar voru færðar yfir á hana. Hann segir gjörninginn fullkomlega löglegan en eðlilegt sé að spurningar vakni um undanskot á eignum. Hann telur að hjónin hafi verið að tryggja hagsmuni fjölskyldunnar.

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gær, var sagt frá kaupmála sem hjónin Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri, og Jón Björnsson gerðu með sér í nóvember. Í kaupmálanum eru allar fasteignir Jóns færðar yfir á Sigrúnu. Jón var áður sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Norðlendinga, en Sigrún leiðir lista Sjálfstæðisflokks á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Jón eiginmaður Sigrúnar Bjarkar hefur verið virkur þátttakandi í viðskiptalífinu síðan hann hætti sem sparisjóðsstjóri árið 2005. Baldur segir eðlilegt að spurningar vakni um hvort hann sé að koma undan eignum með kaupmálanum.