Satan og föruneyti hans stjörnur sýningarinnar

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Satan og föruneyti hans stjörnur sýningarinnar

07.01.2020 - 17:18

Höfundar

Leikhúsrýnir Víðsjár fór sáttur úr Þjóðleikhúsinu af Meistaranum og Margarítu og mælir eindregið með sýningunni fyrir þá sem hafa gaman af leikhústöfrum og góðum sögum.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Á annan í jólum frumsýndi fjölmennur leikhópur Meistarann og Margarítu á stóra sviði Þjóðleikhússins. Sýningin byggist á klassískri rússneskri skáldsögu eftir leikskáldið og rithöfundinn Mikhaíl Búlgakov. Bókin segir frá innrás yfirnáttúrulegra afla inn í heim sem kosið hefur að bæla niður trúna á tilvist þeirra. Sögusviðið er Moskva á tímum stalínismans þegar Sovétríkin eru opinberlega trúlaus, og litið er niður á hvers kyns hjátrú, eins og til dæmis trúna á Jesú sem sögulega persónu. Þetta er samfélag efnishyggju, þar sem menn hugsa meira um það sem þeir hafa í höndunum og minna um andlegu hliðina. Þetta er líka samfélag ritskoðunar þar sem einungis ákveðnar tegundir af sögum eru sagðar. En þó að menn neiti tilvist góðs og ills, fyrirfinnst það enn í heiminum og ekki bara sem hluti af díalektískri stéttabaráttu, heldur sem afl innra með okkur, hluti af hinu mannlega eðli sem engin vísindahyggja fær máð og djöfullinn sjálfur opinberar um leið og hann stígur á svið og fremur sinn svartagaldur.

Bók sem var brennd og lesin í laumi

Það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að ekki hafi mátt gefa bókina út á þeim tíma sem hún var skrifuð. Í sögunni er hæðst að opinberri menningarstefnu Sovétríkjanna sem á þessum tíma þvingaði alla list í þröngt mót sósíalrealismans. Leikhúsmenn sem höfðu aðra nálgun, eins og til dæmis Meyerhold, bókstaflega dóu fyrir list sína en Búlgakov sjálfur var blessunarlega undir verndarvæng sjálfs Stalíns. Þegar hann bað um leyfi til að yfirgefa Sovétríkin eftir að hafa verið meinað að gefa út verk sín og fengið á sig þann stimpil að vera óvinur fólksins er sagt að Stalín hafi hringt í hann persónulega og að lokum fallist á að gera að hann að leikstjóra við listaleikhúsið. Hefði Stalín komist yfir handritið að Meistaranum og Margarítu, sem flakkaði um Rússland í ólöglegri pírataútgáfu hefði hann eflaust haft gaman af mörgu í henni, enda guðfræðimenntaður. En þó svo ég geti ekkert sagt um hvort Stalín las bókina þegar hún barst manna á milli get ég sagt ykkur að hún kom ekki opinberlega út fyrr en meira en 30 árum eftir að hún var skrifuð, löngu eftir dauða harðstjórans.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Leikurinn hefst á því að djöfullinn kemur til Moskvu og hæðist að menningarelítunni þegar hann spjallar við tvo meðlimi hennar, skáldið Ívan Bésdomní og Berlioz formann rithöfundasambandsins. Þeir taka lítið mark á þessum sérkennilega útlenska gesti þar til spádómar hans rætast óvænt og sporvagn ekur yfir Berlioz og Ívan lendir á geðveikrahæli. Bjarni Snæbjörnsson passar vel í hlutverk Ívans, enda með afar sakleysislegt yfirbragð og hann nær að gera hann að mögulega aumkunarverðustu persónu verksins, jafnvel þótt Jesú og Pontíus Pílatus komi báðir við sögu. Inni á geðveikrahælinu kynnist Ívan öðru skáldi sem segir ekki til nafns en játar að hafa skrifað skáldsögu um Pontíus Pílatus, landstjóra Júdeu, sem gagnrýnendur og menningarelítan sem Ívan og Berlioz tilheyra drógu niður í svaðið.

Á meðan þetta gerist flakkar djöfullinn ásamt fylgdarliði sínu um Moskvuborg, opinberar hræsni og græðgi borgarbúa með töfrabrögðum, kennir Margarítu, fyrrum ástkonu nafnlausa höfundarins, nornagaldur svo hún geti tekið á móti púkum og draugum á árlegu heljarballi, auk þess sem við áhorfendur fáum að kynnast hugarangri Pontíusar Pílatusar, Levís Matteusar og um leið Jesú Kristi. Saga Búlgakovs fylgir ekki hefðbundnum reglum um plott og söguþræði, hún er lofgjörð til hins órökrétta og tilviljanakennda, hún er áminning um að hversu skynsöm sem við teljum okkur vera þá er alltaf stutt í myrkur miðalda.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Meistarinn og Margaríta er að hluta til sjálfsævisöguleg bók. Búlgakov brenndi fyrsta handrit bókarinnar líkt og nafnlausi höfundurinn og gælunafn hans á seinni eiginkonu hans var Margaríta. Aðrar persónur, eins og skáld, höfundar og gagnrýnendur, eru líka taldar byggjast á raunverulegum persónum. Ritskoðunin var raunveruleg, og maður getur velt fyrir sér hvort höfundurinn sé að fela í sögunni jafnvel enn beittari gagnrýni en sést á yfirborðinu. Þessi feluleikur gerir söguna meira spennandi en veltir um leið upp spurningum um hvað telst sannleikur, góð list og hvort manneskjur geti raunverulega verið góðar.

Fagurfræðin þjónar sýningunni

Þetta er annað sinn sem Hilmar Jónsson leikstýrir sýningu byggðri á þessari skáldsögu. Ég var í menntaskóla þegar hann setti upp Meistarann og Margarítu í Hafnarfjarðarleikhúsinu og sú sýning er nokkuð góð í brotakenndri minningu minni. Þetta er þó ekki sama leikgerð heldur tiltölulega nýleg útgáfa af verkinu eftir Niklas Rådström sem Hilmar þýddi á íslensku.

Einfaldar sjónhverfingar og töfrabrögð gerðu mjög margt fyrir söguna og minntu á hvað slíkar brellur eru vannýttar í leikhúsi. Búningar Evu Signýjar nutu sín ágætlega, sérstaklega gaman að sjá fuglahöfuðið sem minnti á gömul mótíf úr Hieronimus Bosch málverkum, sem hefði kannski verið gaman að sjá tekin lengra. Leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur var fjölhæf og þjónaði sínum tilgangi án þess að draga athygli sérstaklega til sín, að risavöxnu tunglinu undanskildu. Í heildina litið var ekkert verið að ofgera fagurfræðinni, heldur þjóna textanum. Stefán Hallur Stefánsson lék hlutverk nafnlausa höfundarins og Jesúa Ha Nostri, en báðir karakterar taka á sig syndir mannkynsins í verkinu. Hann er ekki alltaf svona lágstemmdur, en það var góð tilbreyting að hafa hann í hlutverki ljúfmennis sem ekki æsir sig.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið
Birgitta Birgisdóttir í hlutverki ástkonu meistarans.

Birgitta Birgisdóttir lék Margarítu Nikolaévnu, ástkonu meistarans og galdranorn, og kom ágætlega úr því hlutverki, sér í lagi senunni þar sem hún flýgur yfir Moskvu. Stjörnur sýningarinnar voru hins vegar djöfullinn, eða galdrameistarinn Woland, leikinn af Sigurði Sigurjónssyni og föruneyti hans, kötturinn Behemot, Vampíran Hella, og túlkurinn Korovév. Galdrameistarinn í túlkun Sigurðar er lífsreyndur, jafnvel lífsþreyttur, ekki undrandi á neinu eftir að hafa fylgst með mannkyninu í þúsundir ára en með ágætis húmor fyrir okkur. Þetta er krefjandi hlutverk því Mikhaíl Búlgakov skrifar hann ekki sem hreinan óþokka, heldur freistara sem verður fyrir vonbrigðum þegar mennirnir standa ekki undir væntingum, en verðlaunar góðmennsku.

Föruneytið, þau Oddur Júlíusson og María Thelma Smáradóttir voru ólík sjálfum sér, María Thelma reyndar alveg óþekkjanleg sem vampíran. Sérstaklega vil ég þó hrósa Ebbu Katrínu Finnsdóttur í hlutverki túlksins, hún var að hinum ólöstuðum alveg frábær.

Á heildina litið er uppfærsla Hilmar Jónssonar ágætlega heppnuð. Það eru engar feilnótur, en manni finnst heldur ekki verið að taka stóra áhættu, nema maður líti svo á það sé áhætta í sjálfu sér að setja upp jafnerfitt verk. Meistarinn og Margaríta er ein af mínum uppáhaldsbókum, og það á ég, held ég, fyrri uppfærslu Hilmars að þakka, fyrir rúmlega fimmtán árum, en sem aðdáandi bókarinnar, fór ég nokkuð sáttur úr leikhúsinu og mæli eindregið með fyrir alla þá sem hafa gaman af leikhústöfrum og góðum sögum.

Tengdar fréttir

Leiklist

Djöfullinn dansar í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Hættir ekki með kærustunni þótt karakterinn geri það

Leiklist

Djöfulleg galdrabrögð í jólasýningu Þjóðleikhússins

Leiklist

Thorbjörn Egner fær götu við Þjóðleikhúsið